Fótbolti

Erlendir blaðamenn: Argentínumenn eru hræddir við Íslendingana

Henry Birgir Gunnarsson í Moskvu skrifar
Alex frá Brasilíu hefur trú á íslenska liðinu á morgun.
Alex frá Brasilíu hefur trú á íslenska liðinu á morgun. vísr/tumi
Erlendir blaðamenn voru hrifnir af blaðamannafundi íslenska liðsins í dag. Fannst fundurinn skemmtilegri en gerist og gengur í þessum bransa.

„Mér fannst fundurinn mjög frumlegur því þjálfarinn er skemmtilegur karakter. Þetta var fyndinn fundur og þjálfarinn virðist vera náinn einhverjum íslenskum blaðamönnum," sagði Alex frá Brasilíu en hann er sendur hingað til þess að fylgjast með Argentínu. Búinn að vera í 18 ár í bransanum og flestu vanur.

„Þjálfarinn brosti alltaf að spurningum íslensku blaðamannanna því hann virðist þekkja þá. Það er ein af skemmtilegu sögum mótsins að Ísland sé hér."

Alex segir að Ísland eigi möguleika og að Argentína taki leikinn mjög alvarlega.

Ishii er hrifinn af Heimi Hallgrímssyni.vísir/tumi
„Ég held að Argentínumenn séu hræddir við þennan leik. Þeir eru í vandræðum innan sem utan vallar. Þjálfarinn hefur ekki fundið sitt lið enn þá. Ég held að þeir séu hræddir og afar varkárir því þeir kunna ekki nógu vel að verjast gegn föstum leikatriðum. Messi getur svo auðvitað breytt öllu á 5 sekúndum.“

Vísir heyrði líka í hinum japanska Ishiii Daisuke sem skemmti sér vel á fundinum.

„Mér fannst blaðamannafundurinn áhugaverður. Þjálfari sem er tannlæknir. Þeir voru afar afslappaðir þó svo Ísland eigi mjög erfiðan leik fyrir höndum. Ég er mjög spenntur að sjá leikinn og held að Ísland eigi möguleika," sagði Daisuke.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×