Fótbolti

Íslensku markverðirnir æfa með gleraugu sem skerða sjónina | Myndband

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson grípur bolta hálfblindur frá Sebastian Boxleitner.
Rúnar Alex Rúnarsson grípur bolta hálfblindur frá Sebastian Boxleitner. vísir/tom
Þær eru frumlegar og skemmtilegar æfingarnar sem markverði íslenska landsliðsins fara í gegnum á hverjum degi á æfingasvæðinu í Kabardinka.

Vanalega sér Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari íslenska liðsins, um æfingar markvarðanna þriggja en styrktarþjálfarinn Sebastian Boxleitner hjálpaði til í dag.

Þjóðverjinn skellti gleraugum á markverðina þrjá sem skerða sjónina verulega en þau eru hönnuð til þess að bæta viðbrögð markvarða. Þetta er afar vinsælt í markvarðafræðum nú til dags.

Inn í gleraugunum er ljós sem blikkar þannig að mjög erfitt er að sjá með þau á sér. Þau fækka römmum sem mannsaugað sér um tuttugu, að sögn þýska styrktarþjálfarans.

Boxleitner kastaði bæði tennisbolta og fótbolta að íslensku markvörðunum sem áttu bæði að grípa boltana og slá þá til baka.

Fótboltatímaritið FourFourTwo fjallaði um þessi gleraugu eftir að svissneski landsliðsmarkvörðurinn Yann Sommer sást reglulega með þau. Í úttekt tímaritsins segir að mælt sé með því að notast ekki við gleraugun í meira en fimmtán mínútur á dag.

Umgjörð strákanna okkar er alltaf að verða betri og meira fjármagni eytt í tæki og tól. Gleraugu sem þessi eru sögð kosta ríflega 350 evrur eða 40.000 krónur.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.

Frederik Schram náði þessum þó hann sæi lítið.vísir/tom

Tengdar fréttir

Föstu leikatriðin vopn í búrinu

Við vissum nákvæmlega hvað við vildum gera en náðum ekki að fría okkur, segir Kári Árnason um föstu leikatriðin gegn Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×