Lífið

XXXTentacion: Stutt og stormasöm ævi lituð ofbeldishneigð og þunglyndi

Ómögulegt er að aðskilja feril XXXTentacion og ofbeldisverkin sem hann er sakaður um að hafa framið, enda skein frægðarsól hans skærast samhliða ákæru sem gefin var út á hendur honum í október árið 2016.

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rapparinn XXXTentacion á tónleikum í fyrra. Vísir/Getty
Rapparinn Jahseh Dwayne Onfroy, betur þekktur undir nafninu XXXTentacion, fæddist 23. janúar 1998 í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Hann var skotinn til bana í bíl sínum í Miami í fyrradag, tvítugur að aldri.

Sjá einnig: Rapparinn XXXTentacion skotinn til bana

XXXTentacion var einn af helstu forkólfum bandarískrar rappstefnu sem kennd er við Soundcloud og nýtur einkum hylli yngri tónlistarunnenda. Rapparinn skaust hratt upp á stjörnuhimininn eftir að fyrsta plata hans, titluð 17, kom út í ágúst í fyrra, en hafði þó sankað að sér dágóðum fjölda aðdáenda fram að því. Seinni platan, ?, og jafnframt hans síðasta, kom út í mars síðastliðnum og rauk beint upp í fyrsta sæti á bandaríska Billboard-vinsældalistanum.

Áður en lengra er haldið er rétt að vara lesendur við ítarlegum lýsingum á ofbeldi neðar í umfjölluninni.

Ofbeldishneigðin óaðskiljanlegur hluti ferilsins

Ómögulegt er að aðskilja feril XXXTentacion og ofbeldisverkin sem hann er sakaður um að hafa framið, enda skein frægðarsól hans skærast samhliða ákæru sem gefin var út á hendur honum í október árið 2016.

Ofbeldishneigðin var enda aldrei leyndarmál, hún var samtvinnuð vinsældum hans og gerði sig gildandi í textum laga hans. Þá hafa ofbeldisverkin ítrekað verið sett í samhengi við #MeToo-hreyfinguna og umræðu um hvort hægt sé að aðskilja listamenn frá listinni sem þeir skapa. 

Fangamynd af XXXTentacion, gefin út af lögregluyfirvöldum í Miami í Flórída í desember síðastliðnum.Vísir/Getty

Missti meðvitund áður en hann gat stungið grillteini í leggöng hennar

Í umfjöllun Pitchfork, sem unnin er upp úr vitnisburði fyrrverandi kærustu XXXTentacion, er að finna ítarlegar lýsingar á meintu ofbeldi sem rapparinn beitti hana árið 2016, þá átján ára gamall.

XXXTentacion og umrædd kona hófu að búa saman snemmsumars það ár og í júní framdi hann fyrsta ofbeldisverkið. Hann er sagður hafa snöggreiðst eftir að konan hrósaði karlkyns vini sínum og í kjölfarið lét hann konuna velja á milli grillteins og grillbursta en hann hugðist stinga öðru áhaldinu upp í leggöng hennar. Aldrei varð þó af því vegna þar eð konan var í slíku losti að hún missti meðvitund áður en hann stakk áhaldinu inn í hana.

 

Hótaði ítrekað að drepa hana

Samkvæmt vitnisburði konunnar hótaði XXXTentacion henni lífláti hvern einasta dag eftir þetta. Í júlí fluttu þau svo saman til borgarinnar Orlando og þar hélt hann áfram að beita hana ofbeldi. Hann var handtekinn stuttu eftir flutningana og ákærður fyrir rán og líkamsárás, ótengdri heimilisofbeldinu. Á meðan XXXTentacion sat í fangelsi svaf konan hjá öðrum manni en tók aftur saman við XXXTentacion þegar honum var sleppt.

Í byrjun október uppgötvaði konan að hún væri ólétt eftir XXXTentacion. Þann 6. október hótaði hann að drepa hana og ófætt barnið, og bar því fyrir sig að hann hafi komist að því að konan hefði sofið hjá manninum, og gekk hann í kjölfarið í skrokk á henni. Hann herti m.a. að hálsi hennar þar til hún missti meðvitund og kýldi hana þar til hún kastaði upp. Að barsmíðunum loknum gerði XXXTentacion síma konunnar upptækan og var hún föst inni í íbúð þeirra í tvo daga, þar til hún náði að flýja.

Aðdáandi syrgir XXXTentacion við mótorhjólaumboðið þar sem hann var skotinn til bana þann 18. júní.Vísir/Getty
XXXTentacion var í kjölfarið handtekinn og ákærður fyrir líkamsárás gegn ófrískri konu. Þá bættust fleiri ákæruliðir við síðar, þ.á.m. var hann ákærður fyrir að reyna að hafa áhrif á vitni. Réttarhöldum í málinu var ítrekað frestað og hélt XXXTentacion ætíð fram sakleysi sínu. Hann fékk lausn úr stofufangelsi vegna yfirvofandi tónleikaferðalags í mars síðastliðnum.

Gekk í skrokk á samkynhneigðum manni

Þá reitti XXXTentacion marga til reiði þegar hann reyndi að bæta ímynd sína í kjölfar ákærunnar vegna heimilisofbeldisins. Hann hét því til að mynda að láta 100 þúsund Bandaríkjadali af hendi rakna til samtaka gegn heimilisofbeldi, en ekkert bendir þó til þess að hann hafi látið verða af því, og viðburður, sem hann hugðist halda til stuðnings við þolendur kynferðisofbeldis en var síðar blásinn af, þótti afar ósmekklegur.

Aðrar frásagnir af ofbeldisverkum XXXTentacion hafa ratað í fjölmiðla en í apríl 2016 greindi hann til að mynda frá því að hann hefði eitt sinn lamið samfanga sinn til óbóta vegna þess að hann hélt að maðurinn væri samkynhneigður. Í sama viðtali ítrekaði XXXTentacion þó að sjálfur væri hann ekki haldinn fordómum í garð samkynhneigðra, hann styddi rétt þeirra til að ganga í hjónaband og ætti samkynhneigða vini. Viðtalið má horfa á í spilaranum hér að neðan.

Sjálfsvíg á Instagram

Textar í lögum XXXTentacion fjölluðu margir um eiturlyf, þ.á.m. þunglyndislyfið Xanax sem dró keppinaut XXXTentacion, Soundcloud-rapparann Lil Peep, að endingu til dauða í fyrra. Þá þóttu textar XXXTentacion litaðir kvenfyrirlitningu og var honum einnig tíðrætt um þunglyndi og sjálfsvíg.

Sjá einnig: Spotify endurskoðar stefnu sína gegn hatursfullri hegðun

Í því samhengi vakti umdeild Instagram-færsla rapparans, þar sem hann birti myndskeið af sér hangandi í snöru líkt og um sjálfsvíg væri að ræða, mikla athygli í fyrra. Síðar kom þó í ljós að um var að ræða brot úr tónlistarmyndbandi hans við lagið Look at Me.

 

„Mér láðist að segja þér hversu mikinn innblástur þú veittir mér“

Í kjölfar fregna af andláti XXXTentacion hafa fjölmargir minnst hans á samfélagsmiðlum. Þeirra þekktastur er líklega rapparinn Kanye West, sem sagði XXXTentacion hafa veitt sér mikinn innblástur. Rappararnir J. Cole, Big Sean og T-Pain, auk plötusnúðsins Diplo, hafa einnig minnst XXXTentacion með hlýju.

Þessir starfsbræður XXXTentacion létu meint ofbeldisverk þess síðarnefnda ósnert er þeir minntust hans. Ofbeldishneigðin virðist enda ekki hafa haft teljanleg, neikvæð áhrif á stuttan og stormasaman feril XXXTentacion.

Hinsta kveðja XXXTentacion

Í gær, daginn eftir að XXXTentacion var skotinn til bana tvítugur að aldri, komst myndband af honum í dreifingu á samfélagsmiðlum. Í myndbandinu, sem XXXTentacion tók upp og streymdi í beinni útsendingu á Instagram-reikningi sínum í desember síðastliðnum, hefur hann óhjákvæmilegan dauðdaga sinn til umfjöllunar.

Í myndbandinu segist XXXTentacion sáttur við að deyja, að því gefnu að hann hafi glatt a.m.k. fimm milljónir ungra aðdáenda á lífsleiðinni. Þá vill hann koma því á framfæri við aðdáendur sína að hann elski þá og hvetur þá til að láta þunglyndið ekki hafa yfirhöndina. 

„Þið þurfið bara að láta ykkur dreyma og þið þurfið bara að uppfylla þann draum. Og tileinka ykkur styrkinn.“

 


Tengdar fréttir






×