Innlent

Verkefni Önnudísar Grétu hlaut hæsta styrkinn úr Jafnréttissjóði

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna sem er ætlað að efla kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.
Alls hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna sem er ætlað að efla kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Mynd/Stjórnarráðið
Tæpum 100 milljónum króna var úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands við hátíðlega athöfn á Hótel Borg fyrr í dag. Alls hlutu 28 umsækjendur styrk til verkefna og rannsókna sem er ætlað að efla kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

Hæsta styrkinn hlaut verkefni Önnudísar Grétu Rúdolfsdóttur, „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni: Rannsóknir og aðgerðir“, samtals 10 milljónir króna. Næsthæsta styrkinn, níu milljónir króna, hlaut Arnhildur Gréta Ólafsdóttir fyrir gerð heimildarmyndarinnar „Full Steam Ahead.“

Við athöfnina fluttu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra ávörp. Sagði forsætisráðherra meðal annars að hún persónulega eigi mikið undir þeim tækjum sem innleidd hafi verið hér í þágu jafnréttis, því án fæðingarorlofs karla og kvenna og almennra leikskóla hefði verið þrautinni þyngra fyrir hana að taka þátt í stjórnmálum samhliða því að byggja upp fjölskyldu.

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður 19. júní 2015 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna og er megintilgangur sjóðsins að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

Alls bárust 85 umsóknir í ár og var heildarfjárhæðin sem sótt var um rúmar 520 milljónir króna.

Sjá má lista yfir styrkþega á heimasíðu stjórnarráðsins.

Annadís Gréta Rúdolfsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.Mynd/stjórnarráðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×