Innlent

Flugmaðurinn segir vélina ekki hafa verið á miklum hraða

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Flugmaðurinn og farþeginn í vélinni sem var lent í Kinnarfjöllum í gærkvöldi eru ómeidd.
Flugmaðurinn og farþeginn í vélinni sem var lent í Kinnarfjöllum í gærkvöldi eru ómeidd.
Flugmaðurinn og farþeginn í vélinni sem var lent í Kinnarfjöllum í gærkvöldi eru ómeidd. Flugmaðurinn er á leið aftur að vélinni og vonast til að geta flogið henni þaðan sem fyrst. 

TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að stjórnstöð Gæslunnar barst tilkynning um flugslys í Kinnarfjöllum rétt norðan af Ljósavatni við Húsavík. Tveir voru í vélinni; flugmaðurinn Pétur Jökull Jacobs og vinkona hans. Flugmaðurinn var í skýrslutöku hjá lögreglunni í morgun. 

Vel búin

Að sögn Péturs stóð til að lenda vélinni á þessum stað við lendingu varð ljóst að aðstæður voru aðrar en hann taldi þar sem of mikið viðnám var í snjónum. Vélin var ekki á miklum hraða og var höggið því nokkuð létt. Ekki var þó hægt að gangsetja vélina aftur og þurfti fólkið því að kalla eftir hjálp.

Að sögn Péturs voru þau vel búin, með tjald og svefnpoka í vélinni, sem þau nýttu á meðan þau biðu í um klukkustund eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Annarri vél var einnig flogið yfir þau og lét flugmaður hennar auka svefnpoka falla til þeirra. 

Fólkið var flutt á Sjúkrahúsið á Akueryri til skoðunar en þau voru ómeidd og því útskrifuð seint í gærkvöldi. Vélin er að hluta í eigu flugmannsins og ætlar hann að reyna að komast að henni í dag. Pétur telur vélina lítið skemmda og vonast til þess að hægt verði að fara að henni með flugvirkja, gera við hana og fljúga henni þaðan. 

Rannsóknin á frumstigi

Lög­regl­an á Norður­landi eystra fer með rann­sókn á slys­inu en rann­sókn­ar­nefnd flug­slysa var að störfum á vettvangi til um klukkan þrjú í nótt að sögn Þorkels Ágústssonar, rannsóknarstjóra. Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag er rannsóknin á frumstigi og tildrög enn ókunn. 

„Við vorum bara að klára vettvangsrannsókn í nótt og svo höldum við áfram á næstu dögum," segir Þorkell.  Ekki er ljóst hvenær niðurstaða mun liggja fyrir.  

„Við skoðum bara vettvanginn og myndum og höldum síðan áfram með framhaldið."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×