Erlent

Hætta að dæma keppendur Miss America eftir útliti

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá keppninni árið 2015.
Frá keppninni árið 2015. Vísir/AP
Forsvarsmenn fegurðarsamkeppninnar fyrrverandi Miss America segja að hætt hafi verið við sundfatahluta keppninnar og að hætt verði að dæma keppendur eftir útliti þeirra. Í stað þess að stíga á svið í sundfötum og háum hælum munu keppendur nú mæta dómurum keppninnar og ræða við þá um afrek þeirra og hvernig þær vilja nota hæfileika sína og ástríðu til að vinna að markmiðum Miss America.

Gretchen Carlson, formaður stjórnar Miss America samtakanna, tilkynnti breytingarnar í sjónvarpsviðtali í morgun. Þar sagði hún að ekki væri lengur um fegurðarsamkeppni að ræða. Miss America væri nú bara keppni.

„Við munum ekki lengur dæma keppendur okkar á líkamlegu útliti þeirra. Það er stórt og það þýðir að við munum ekki lengur vera með sundfatakeppni og það verður klárt þann 9. september í keppninni okkar í Atlantic City,“ sagði Carlson.

Stjórnendur Miss America sögðu af sér í desember eftir að tölvupóstsamskipti þeirra rötuðu í fjölmiðla. Þar höfðu þeir talað um fyrrverandi fegurðardrottningar með niðrandi hætti. Meðal annars ræddu þeir um holdafar þeirra og gáfu í skyn að þær væru lauslátar.

Sjá einnig: Framkvæmdastjórinn hæddi og smánaði fegurðardrottningar

Nú eru konur í þremur æðstu stöðum samtakanna.

Carlson segir að einnig standi til að gera breytingar á kjólahluta keppninnar en ekki liggur fyrir hvernig þær breytingar verða. Regina Hopper, forstjóri samtakanna, segir að nýja markmið keppninnar verði að undirbúa stórkostlegar konur fyrir heiminn og að undirbúa heiminn fyrir stórkostlegar konur.

„Við viljum að fleiri ungar konur sjái Miss America sem tækifæri sem þær geta notað til að hafa áhrif og við viljum veita þeim þá nauðsynlegu hæfileika og aðföng sem þær þurfa til að slá í gegn á þeirri framabraut sem þær velja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×