Skoðun

Gleymdu börnin á Íslandi

Stefán John Stefánsson skrifar
Á Vesturlöndum er heilaskaði talinn ein helsta ástæðan fyrir heilsufarsvandamálum hjá börnum, unglingum og ungu fólki á fullorðinsaldri. Hér á landi eru árlega greind yfir 500 börn með heilaáverka og 200 af þeim eru börn á aldrinum 0-4 ára. Af þessum tölum má dæma að 40 börn og unglingar muni þurfa að takast á við alvarlegar afleiðingar heilaskaða til lengri tíma og oft á tíðum fram á fullorðinsár. Þessi börn þurfa á sérhæfðri endurhæfingu að halda til að lágmarka afleiðingar heilaskaða en því miður eru slík úrræði ekki í boði í heilbrigðiskerfinu.

Í dag fá einungis eitt til þrjú börn á Íslandi, af fjörutíu, greiningu og skammtímaendurhæfingu, brotabrot af þeim börnum sem þurfa á meðferð að halda.

Afleiðingar heilaskaða í æsku koma oft ekki að fullu fram fyrr en við fullorðinsárin þegar þessir einstaklingar fara að reyna að standa á eigin fótum í lífinu. Heilaskaði er fötlun sem hefur vitsmunaleg og líkamleg áhrif á einstaklinginn.

Fá ranga meðferð

Hvað verður um hin 37 börnin? Jú, þau gleymast. Á hverju ári má gera ráð fyrir því að um 37 börn sem ekki hljóta viðeigandi meðferð verði út undan og að náms- og félagsfærni þeirra hraki.

Mörg af þessum börnum fá ranglega greiningu um AD/HD eða einhverfu og af þeim sökum fá þau ranga meðferð og jafnvel röng lyf. Þrátt fyrir að einkenni séu svipuð er um ólíka hluti að ræða sem þarfnast ólíkrar meðferðar.



Mikið í húfi

Það er mikið í húfi og nauðsynlegt að sinna þessum gleymdu börnum og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í samfélaginu sem virkir einstaklingar.

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur nú skipað starfshóp sem fer vandlega yfir stöðu fólks með ákominn heilaskaða og þar með talið börnin okkar. Sérhæfð íhlutun er ekki til staðar á Íslandi og úr því þarf sannarlega að bæta.

Höfundur er verkefnastjóri Hugarfars




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×