Enski boltinn

Hamann vorkennir Karius ekki neitt: Óþarfi að grenja fyrir framan stuðningsmennina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Karius á ekki sjö dagana sæla.
Karius á ekki sjö dagana sæla. vísir/getty
Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmaður Liverpool, vorkennir samlanda sínum Loris Karius, nákvæmlega ekki neitt en Karius tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar með tveimur svakalegum mistökum. Hamann vann Meistaradeildina með Liverpool árið 2005.

Karius grét úti á velli eftir að flautað var til leiksloka en hann gekk svo að stuðningsmönnum Liverpool og baðst afsökunar er tárin runnu niður kinnar hans.

Samúðin er engin hjá Hamann sem fannst þetta óþarfi hjá Karis. Í viðtali við þýska blaðið Bild sendir hann Þjóðverjanum væna pillu og gagnrýnir markvörðinn fyrir að vera með of stórt egó.

„Ég vorkenni honum eiginlega ekki neitt. Það þarf náttúrlega ekki að ræða það að hann tapaði leiknum með tveimur mistökum, en það getur komið fyrir alla fótboltamenn. Það sem mér líkaði ekki var hegðun hans efti rleikinn,“ segir Hamann.

„Það að sýna hversu erfitt hann átti eftir leik var jafn óþarfi og þegar að hann var grátandi að biðjast afsökunar fyrir framan stuðningsmennina.“

„Stuðningsmenn Liverpool fyrirgefa sínum stjörnum því eins og segir í laginu þá gengur þú ekki einn. Það er þó ein undantekning og það er þegar að egóið þitt passar ekki við frammistöðu þína á vellinum.“

„Karius keyrir um í Liverpool með einkanúmerið LK1 og lætur vita af sér hvert sem hann fer. Þetta er eitthvað sem Ronaldo getur gert í Madrid því hann hefur unnið Meistaradeildina fimm sinnum en Karius hefur ekki afrekað neitt og ætti að þakka fyrir að fá að spila fyrir félag eins og Liverpool,“ segir Dietmar Hamann.


Tengdar fréttir

Karius: Við komum sterkari til baka

„Ég hef í rauninni ekkert sofið. Atvikin eru enn að renna í gegnum huga mér,“ segir Loris Karius, en hann gerðist sekur um skelfileg mistök í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×