Innlent

Davíð segir ríkisstjórnina ekki hafa gripið tímanlega til aðgerða í aðdraganda hrunsins

Sylvía Hall skrifar
Davíð sagðist í viðtalinu hafa mætt efasemdum af hálfu ríkisstjórnar þegar hann lýsti yfir áhyggjum sínum.
Davíð sagðist í viðtalinu hafa mætt efasemdum af hálfu ríkisstjórnar þegar hann lýsti yfir áhyggjum sínum. Vísir/Ernir
Davíð Oddsson segir það hafa legið fyrir í ársbyrjun 2008 að bankarnir færu í þrot. Þetta kom fram í þættinum Þingvellir á K100 í dag. Hann segir að þó vitneskjan um yfirvofandi atburði væri til staðar hafi verið of seint að grípa inn í á þeim tíma. Í viðtalinu segir Davíð að á þeim tíma er hann sá í hvað stefndi hafi hann farið á fund með forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Hann hafi upplýst þá um stöðuna en segist hafa mætt efasemdum og áhyggjur hans hafi ekki hreyft við ríkisstjórninni.

Hann segir það hafa verið skiljanlegt að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi verið varkárir á þessum tíma, enda benti fátt til þess í máli bankanna að eitthvað væri að. Bæði forsvarsmenn og reikningar sögðu til um að allt væri í lagi. Hins vegar telur hann að ef afstaða ríkisstjórnarinnar hefði verið önnur hefði það getað gert þjóðinni auðveldara fyrir í samskiptum við aðrar þjóðir í kjölfar hrunsins, og aðrar þjóðir frekar unnið með okkur en gegn.

Fyrsta sinn sem ráðist var að sjálfstæði Seðlabanka á Vesturlöndum

Davíð segist ekki erfa það við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, forystumenn ríkisstjórnarinnar eftir hrun, að hafa tekist á við málin líkt og þau gerðu. Hann telji þó að samstarfsmönnum hans innan Seðlabankans hafi verið bolað í burtu vegna hans og þessi stjórnvöld hafi verið þau fyrstu á Vesturlöndum sem hafi gert atlögu að sjálfstæði Seðlabanka. „Mér var mjög brugðið að þetta skyldi hafa gerst með þessum hætti.“

Aðspurður hvernig honum litist á núverandi ríkisstjórn segist Davíð meta það svo að það hafi verið rétt að setja Katrínu Jakobsdóttur í forsætisráðherrastól og samstaða hafi verið meðal þjóðarinnar að svo færi. Hann telur að Steingrímur gæti staðið sig vel í sæti forseta Alþingis og sagðist hann óska Katrínu velfarnaðar í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×