Skoðun

Þjóðarsjúkrahús að Keldum

Jón Hjaltalín skrifar
Fagna ber að hreyfing er loksins komin á byggingu meðferðarkjarna við Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut þótt mikill meirihluti Reykvíkinga og þjóðarinnar telji mun skynsamlegra að byggja þess í stað nýtt Þjóðarsjúkrahús á betri stað eins og á Keldum. Miðflokkurinn hefur lagt fram tillögu á Alþingi um alvöru staðarvalsgreiningu spítala á Keldum eða Vífilsstöðum borið saman við Hringbrautina. Þessi tillaga hefur verið „svæfð“ í velferðarnefnd Alþingis af fulltrúa VG svo umræður og afgreiðsla tillögunnar frestast fram á haustið.

Staðarvalsgreining og forhönnun á að taka 12 mánuði

Helstu fylgismenn byggingar Landspítala við Hringbraut bera fyrir sig þá þvælu að það muni seinka byggingu spítalans um 10-15 ár að hugleiða annan stað, einkum vegna tíma við staðarvalsgreiningu, deiliskipulag og opinberar leyfisveitingar! Þann 11. maí sl. efndu samtökin Betri spítali á betri stað til málþings um byggingu þjóðarsjúkrahúss og flutti íslenski arkitektinn Hallgrímur Þór Sigurðsson, meðeigandi Nordic arkitektastofunnar í Ósló, þar erindi um staðarvalsgreiningu, hönnun og byggingu 10 spítala í Noregi og Danmörku. En arkitektastofa hans hefur mikla sérfræðiþekkingu með um 50 arkitekta sem vinna eingöngu við staðarvalsgreiningu, hönnun og skipulagningu spítala og heilsutengdra verkefna.

Í erindi sínu taldi Hallgrímur upp átta nýleg sjúkrahús sem hafa verið byggð eða sem verið er að byggja í Danmörku og Noregi þar sem heildartími staðarvals, hönnunar og byggingar spítalanna er 5-10 ár eftir stærð þeirra og staðsetningu. Athyglisvert var að allir þessir spítalar hafa verið byggðir á nýjum stað í útjaðri viðkomandi borga í staðinn fyrir við gömlu spítalana í miðborginni.

Hallgrímur kynnti sérstaklega verkefni sem hann er að vinna að sem er nýtt háskólasjúkrahús í Stavanger í Noregi sem á að þjóna 360.000 íbúum svæðisins en íbúar Stavanger í dag eru um 140.000 eða svipað og á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Sjúkrahúsið verður 205.000 fm með 650 rúmum. Staðarvalsgreining var gerð á þremur stöðum í Stavanger og fór fram árin 2015-2016 sem fólst í 6 mánaða staðarvalsgreiningu og forhönnunarferli og 6 mánaða pólitísku ferli (deiliskipulag og leyfisveitingar). Hönnun og bygging sjúkrahússins á þeim stað sem valinn var tekur sjö ár og verður það tekið í notkun 2023. Staðarvalsgreiningin sýndi fram á að það var tveimur árum skemmri tími og mun ódýrara en að byggja við gömlu spítalana í miðborg Stavanger.

Kjósandi góður, hvers vegna tekur staðarvalsgreining sjúkrahúsa, deiliskipulag og leyfisveitingar tíu ár á Íslandi en aðeins eitt ár í Noregi?

Höfundur er verkfræðingur og frambjóðandi Miðflokksins í Reykjavík






Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×