Íslenski boltinn

Valsmenn á pari við titilvörnina skelfilegu fyrir áratug

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valur tapaði fyrir Grindavík í gærkvöldi.
Valur tapaði fyrir Grindavík í gærkvöldi. Vísir/Stefán
Íslandsmeistarar Vals byrja titilvörnina í Pepsi-deild karla illa. Liðið tapaði fyrir Grindavík á útivelli í gærkvöldi, 2-1, og situr í áttunda sæti með sex stig eftir fimm umferðir.

Frammistaða Valsliðsins hefur komið öllum sparkspekingum á óvart enda var Val spáð Íslandsmeistaratitlinum hjá bókstaflega öllum sem lögðu einhvern metnað í það að spá fyrir um niðurstöðu Pepsi-deildarinnar.

Valur vann deildina með yfirburðum á síðustu leiktíð og setti svo í fluggírinn eftir rólegheit í Reykjavíkurbikarnum og pakkaði saman Lengjubikarnum og varð meistari meistaranna. Fyrir mót var Valur nánast ósigrandi.

Svona var útlitið einnig fyrir sumarið 2008 þegar að Valsmenn komu lang sigurstranglegastir inn í mótið eftir að verða meistarar árið 2007 og drottna yfir undirbúningstímabilinu.

Titilvörnin það árið var skelfileg en frábærlega vel mannað lið Vals hafnaði í fimmta sæti með 35 stig, tólf stigum á eftir Íslandsmeisturum FH.

Sumarið 2008 byrjaði Valur á 5-3 tapi gegn Keflavík í Bítlabænum og vann tvo leiki en tapaði þremur í fyrstu fimm og var með sex stig eins og núna. Valur hefur aftur á móti aðeins unnið einn leik þetta tímabilið og gert þrjú jafntefli og stigafjöldinn því sá sami og 2008 eftir jafnmarga leiki.

Valur mætir næst Breiðabliki á heimavelli á sunnudaginn klukkan 20.00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD en tapi liðið þar verður það átta stigum á eftir toppliðinu eftir aðeins sex umferðir.

Staða Vals eftir fimm umferðir 2008:

8. sæti með sex stig, tíu mörk skoruð og tólf fengin á sig

Staða Vals eftir fimm umferðir 2018:

8. sæti með sex stig, sjö mörk skoruð og sjö fengin á sig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×