Innlent

Páll Óskar hafnaði fundi með sendiherra Ísraels

Birgir Olgeirsson skrifar
Rapheal Schutz, sendiherra Ísrael gagnvart Íslandi.
Rapheal Schutz, sendiherra Ísrael gagnvart Íslandi. Vísir/Vilhelm

Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi, telur orðspor Ísraels eiga undir högg að sækja á Íslandi. Hann boðaði til blaðamannafundar fyrr í dag þar sem hann reyndi að útskýra hlið Ísraels í átökum tengdum Gaza-svæðinu og nýju sendiráði Bandaríkjanna í Jerúsalem.

Ísrael vann Eurovision eftirminnilega fyrr í mánuðinum og ljóst að keppnin verður haldin þar í landi á næsta ári. Schutz sagði Ísraelsmenn ekki hafa tekið endanlega ákvörðun hvort keppnin verður haldin í Jerúsalem eða Tel Avív. Hann sagði hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að keppnina verði í Jerúsalem, enda hafi hún verið haldin með góðum árangri þar í borg tvisvar áður.

Minntist hann sérstaklega á góðan árangur Selmu Björnsdóttur þegar hún hafnaði í öðru sæti í keppninni þegar hún var haldin í Jerúsalem árið 1999.

Páll Óskar Hjálmtýsson, sem keppt hefur fyrir hönd Íslands í Eurovision og er mikill fræðingur um keppnina, lýsti því yfir fyrr í mánuðinum að Íslendingar ættu að sniðganga keppnina í Ísrael á næsta ári og mótmæla þannig „fjöldamorðum Ísraelshers á Palestínu og setja mörk á alþjóðavísu.“

Schutz sagði á blaðamannafundinum fyrr í dag að hann hefði boðið Páli Óskari til viðræðna til að lýsa sínum sjónarmiðum og leyfa Páli Óskari að heyra hlið Ísraels í þessu máli en sagði Pál hafa hafnað boði hans.

Sagðist hann vonast til þess að Íslendingar muni taka þátt í keppninni á næsta ári.

Nánar verður fjallað um efni fundarins og rætt frekar við Schutz í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.