Fótbolti

Sigurður Ragnar: Átti ekki von á því að missa starfið

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson er fluttur til Íslands á nýjan leik og opin fyrir öllu.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson er fluttur til Íslands á nýjan leik og opin fyrir öllu. getty
Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur á ellefu ára löngum þjálfaraferli sínum farið allt frá Vestmannaeyjum til Kína með viðkomu í Noregi. Þjálfaraferill Sigurðar Ragnars hófst þegar hann tók við stjórnartaumunum hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu árið 2007. Hann stýrði liðinu í sjö ár og fór tvisvar sinnum með liðið í lokakeppni Evrópumóts. Þaðan lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hann stýrði karlaliði félagsins í eitt keppnistímabil.

Eftir smá pásu hélt hann svo með Rúnari Kristinssyni til Lilleström í Noregi árið 2014, en þar var hann í þjálfarateymi karlaliðs félagsins. Sigurður var bæði styrktar- og úthaldsþjálfari liðsins og hægri hönd Rúnars sem var aðalþjálfari liðsins. Fékk hann einnig spennandi boð um að taka við starfi sem tæknilegur ráðgjafi hjá ástralska knattspyrnusambandinu og fór hann til Ástralíu til að funda en hann tók ákvörðun um að velja verkefnið í Noregi þess í stað.

Eftir tveggja ára veru hjá Lille­ström var Rúnari sagt upp störfum á miðju kepppnistímabili árið 2016 og í lok leiktíðarinnar hætti Sigurður störfum hjá félaginu.

Kína kom kallandiÁrið 2017 lá svo leiðin til Kína þar sem Sigurður var ráðinn þjálfari kvennaliðsins Jiangsu Suning, en hann gerði liðið að bikarmeisturum. Sá árangur fangaði athygli kínverska knattspyrnusambandsins og var hann ráðinn þjálfari kínverska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir sex mánuðum.

Eftir nokkur slæm úrslit í vináttulandsleikjum í upphafi stjórnartíðar Sigurðar með kínverska liðið var landið farið að rísa hjá liðinu. Sigurður náði í bronsverðlaun á Asíuleikunum í apríl, en sá árangur dugði til þess að tryggja liðinu þátttökurétt í lokakeppni HM 2019.

Það dugði hins vegar ekki til þar sem kínverska knattspyrnusambandið ákvað að segja Sigurði upp störfum í síðustu viku eftir sex mánuði í starfi. Það kom Sigurði í opna skjöldu þegar hann var látinn taka pokann sinn þrátt fyrir að hann gerði sér grein fyrir því að ekki væri mikil þolinmæði hjá kínverska knattspyrnusambandinu og starfsöryggið ekki verið mikið í þessu starfi í gegnum tíðina.

„Það voru engin teikn á lofti svo sem og ég átti ekki von á því að missa starfið á þessum tímapunkti. Við stóðum okkur vel að mínu mati á Asíuleikunum og náðum þeim markmiðum sem sett voru þegar ég var ráðinn. Þegar við sömdum var rætt um að ná í verðlaun á Asíuleikunum og tryggja liðið í lokakeppni HM og það tókst,“ sagði Sigurður í samtali við Fréttablaðið.

Þróunin þótti of hæg„Við töpuðum bara fyrir Japan sem er mun hærra skrifað en Kína í kvennaboltanum og hefur verið í allra fremstu röð undanfarin ár. Ég fékk mjög misvísandi skilaboð um það hver stefnan væri með liðið. Þegar ég tók við var talað um að liðið ætti að toppa á Ólympíuleikum árið 2020, en ástæðan sem ég fékk þegar ég fékk sparkið var að við værum ekki komin nógu nálægt bestu þjóðum heims og þróunin væri of hæg undir minni stjórn,“ sagði Sigurður um brottreksturinn.

„Vinnumenningin er allt önnur í Kína en í Evrópu. Það er mikil stéttaskipting í öllu vinnulagi og mikil yfirmannahollusta. Forsvarsmenn kínverska knattspyrnusambandsins eru ekki vanir því að þjálfari liðsins hafi sterkar skoðanir á því hvernig vinnuumhverfið sé og það var nýtt fyrir þeim að kynnast því hvernig hlutir eru gerðir í Evrópu. Það tala fáir ensku hérna og öll samskipti mín við kínverska starfsmenn og leikmenn liðsins fóru fram í gegnum túlk. Þetta var mjög lærdómsríkt og ég sé ekki eftir því að hafa tekið þetta starf að mér,“ sagði Sigurður um starfsumhverfið í Kína.

Vilja endurvekja gullaldarárinSigurður fékk aðeins rúma sex mánuði í starfi áður enn hann fékk stígvélið. Hér á árum áður var kínverska liðið eitt af þeim fremstu í heiminum en árangurinn hefur verið slakur undanfarin ár.

„Það hefur ekki verið mikil þolinmæði síðustu ár í garð forvera minna í starfi og fjölmiðlar eru duglegir að rifja það upp hversu gott liðið var fyrir tuttugu árum. Það er vissulega mikill efniviður til staðar í Kína, en það eru færri leikmenn sem stunda knattspyrnu að atvinnu en maður myndi halda. Það eru til að mynda bara 15 lið í tveimur atvinnumannadeildum í Kína,“ sagði Sigurður enn fremur um tímann sinn í Kína.

Hann er kominn aftur til Íslands og er með augun og eyrun opin.

„Nú er ég bara nýfluttur heim og er að melta það að vera hættur störfum hjá Kína. Ég er opinn fyrir öllu og starfsferill minn sýnir að ég er til í spennandi verkefni hvar svo sem það er í heiminum og ég er bæði til í að starfa sem félagsliðaþjálfari og landsliðsþjálfari. Nú ætla ég bara að njóta sumarsins og sjá hvað mér býðst,“ sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×