Körfubolti

Þjálfari Cleveland Cavaliers: Besti leikur LeBrons á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James sýndi enn á ný snilli sína í nótt.
LeBron James sýndi enn á ný snilli sína í nótt. Vísir/Getty
LeBron James á að baki margar rosalegar frammistöður á löngum og glæsilegum ferli sínum í NBA-deildinni og hann bætti einum við í nótt þegar Cleveland Cavaliers tryggði sér sæti í lokaúrslitum NBA-deildarinnar fjórða árið í röð.

Cleveland Cavaliers vann þá Boston Celtics á útivelli í hreinum úrslitaleik um sæti í lokaúrslitunum þar sem liðið mætir annaðhvort Golden State Warriors eða Houston Rockets.

LeBron James spilaði allar 48 mínúturnar í 87-79 sigri Cleveland Cavaliers og var með 35 stig, 15 fráköst, 9 stoðsendingar og 2 varin skot.





Tyronn Lue, þjálfari Cleveland Cavaliers, var ánægður í leikslok og sparaði ekki stóru orðin í viðtölum við fjölmiðla.

„Þetta er hans besti leikur á ferlinum. Hann hefur átt marga svakalega leiki á glæsilegum ferli en ef við tökum inn kringumstæðurnar, alla sögu Boston og að við vorum að mæta vel þjálfuðu og ungu liði sem hafði ekki tapað á heimavelli þá kemst ég að þessari niðurstöðu,“ sagði Tyronn Lue.

Boston Celtics liðið hafði unnið tíu fyrstu heimaleiki sína í úrslitakeppninni í ár fyrir þennan leik og þar af þrjá heimaleiki á móti Cleveland með 17 stigum að meðaltali í leik.





LeBron James er kominn í lokaúrslitin áttunda árið í röð og sjaldan hefur hann borið uppi lið eins og hann gerir í ár. Það hjálpaði ekki heldur til að næstbesti leikmaður liðsins, Kevin Love, missti af nær öllum leik sex og var heldur ekki með í nótt.

LeBron James endaði einvígið á móti Boston Celtics með 33,6 stig, 9,0 fráköst og 8,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.  Hann skoraði 34,0 stig að meðaltali í leik í einvíginu á móti Toronto Raptors og var með 34,4 stig í leik í fyrstu umferðinni á móti Indiana Pacers.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×