Innlent

Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft áhrif á upplifun kvenna í fæðingu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Inga Vala Jónsdóttir gerði meistararannsókn á reynslu íslenskra kvenna sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku af barneignarferlinu.
Inga Vala Jónsdóttir gerði meistararannsókn á reynslu íslenskra kvenna sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku af barneignarferlinu. Mynd/Aðsent
„Kynferðislegt ofbeldi, sem að manneskja verður fyrir í æsku, getur haft áhrif á heilsufar og mótað manneskju alla ævi. Það getur líka haft áhrif á barneignarferlið, hvernig henni líður á meðgöngu og hvernig hún mögulega tekst á við fæðinguna og svo foreldrahlutverkið. Kynferðislegt ofbeldi getur haft áhrif á þetta allt saman,“ segir Inga Vala Jónsdóttir ljósmóðir í samtali við Vísi.

Inga Vala kynnti á fyrirlestri hjá Stígamótum í hádeginu í dag meistararannsókn sína frá Háskólanum á Akureyri sem fékk heitið „Að það sé einhver skilningur á manni“ – Reynsla íslenskra kvenna sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku af barneignarferlinu.

Inga Vala hefur starfað sem ljósmóðir í fimmtán ár og hefur í sínu starfi reynslu af fæðingum kvenna með slíka reynslu. Sjálf varð hún einnig fyrir kynferðisofbeldi sem unglingur. Hvatinn að þessu viðfangsefni var í upphafi mál systur hennar, sem Robert Downey var dæmdur fyrir að brjóta á. 

Oftast vita ljósmæðurnar þó ekki af því ef kona sem hún sinnir í mæðravernd, fæðingu eða heimaþjónustu er þolandi kynferðislegs ofbeldis.

„Þessi mál eru sjaldnast uppi á borðinu og konur finna sjaldan hvatann til þess að segja frá því sjálfar, nema þær séu komnar vel á veg í úrvinnslu og sjaldnast er það fyrir fyrstu fæðingu.“

Kemur oft upp á yfirborðið eftir fyrstu fæðingu

Það getur þó verið breytt fyrir næstu fæðingu, sem Inga Vala segir að hafi verið skemmtileg niðurstaða í rannsókn sinni.

„Oft er það þannig að þær eiga erfiða reynslu af fyrstu fæðingu og stundum verður líka til þess að það að verða foreldri og þurfa að takast á við það að taka ábyrgð á barni og hugsa um barn og hugsa „hvernig voru aðstæður mínar þegar ég var barn?“ Þá fara þessi mál oft að fara upp á yfirborðið og þá verður hvati til úrvinnslu. Barneignir virðast hjálpa konum áleiðis að vinna með sjálfa sig, það er ljósi punkturinn í þessu.“

Inga Vala segir að hún hafi líka farið af stað með þessa rannsókn til þess að vekja þessa umræðu hjá ljósmæðrum.

„Og til að koma þessu betur inn í fagið. Að upplýsa ljósmæður um hvað þetta getur haft mikil áhrif og ekki síður konur sem eru að fara að eiga börn. Þannig að við getum líka vitað hvað við eigum að gera ef kona segir frá og eigum við að spyrja hana? Eigum við að ganga á konur eða eigum við að bíða eftir að þær segi frá?“

Inga Vala á fyrirlestri sínum í hádeginu. Vísir/Vilhelm

Gott tækifæri til inngripa

Erlendis hefur verið skoðað hvernig hægt er að aðstoða þessar konur. Inga Vala telur að það sé hægt að ræða þessi mál fyrir fæðinguna og aðstoða þannig konurnar að takast á við barneignaferlið.

„Það sem er heitast í fræðunum í dag er áfallamiðuð umönnun og það miðar ekki bara við það að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku, það miðar bara við að hafa orðið fyrir hvers kyns ofbeldi eða áföllum í lífinu sem gerir mann viðkvæmari fyrir. Af því að bæði ofbeldi og áföll framkalla streitu og það er streita sem að veldur þessu eitraða ástandi í líkamanum sem að kallar þá fram sjúkdóma.“

Inga Vala lýsir þessu sem snjóbolta sem rúllar af stað og vindur sífellt upp á sig.

„Ef að maður getur ekki einhvers staðar gripið inn í eða stoppað það þá á endanum verður fólk veikt. Í mæðraverndinni eru það oft fyrstu afskipti sem konur hafa einar af heilbrigðiskerfinu á eigin forsendum. Þær leita þarna fyrir sig og fyrir börnin sín, þær eru ekki að fara af því að þær voru veikar í bakinu eða mamma þeirra sagði þeim að fara af því að þær voru með vörtu á tánni eða eitthvað.“

Það er ekki í verklagi ljósmæðra að spyrja út í kynferðisofbeldi í æsku, þegar konur eru í mæðravernd á meðgöngu og gerð er heilbrigðisskimun. Inga Vala telur þó að þegar konur eru að hugsa um eigin heilsu með þessum hætti sé mæðraverndin kjörinn staður til að ræða þessi mál.

„Þetta getur verið gott tækifæri til þess að grípa inn í, gera eitthvað gott. Koma þeim áleiðis í úrvinnslu.“

Margir þolendur kynferðisofbeldis í æsku eigag erfitt með að sjá ókunnuga koma við börnin sín, sérstaklega ef þau eru nakin og berskjölduð í skoðuninni. Vísir/Vilhelm

Góð tengsl við ljósmóður hafa áhrif

Inga Vala segist stundum velta því fyrir sér hvort það þurfi að koma upp sérstökum mömmutíma í mæðraverndinni, þar sem hægt er að ræða ákveðin mál við móðurina í einrúmi. Algengt er að hitt foreldrið mæti með í suma eða alla tímana í mæðravernd og segir hún að flest allt sé gott við það.

„Þetta er svolítið snúið og er viðkvæmt mál. Það er ekki alltaf þannig að konurnar svari já ef þær hafa orðið fyrir einhverju. Þurfa þær oft tíma, þær þurfa að læra að treysta manni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þú fáir að kynnast vel einni ljósmóður. Í fullkomnum heimi væri bara ein ljósmóðir sem fylgdi þér í gegnum meðgöngu, fæðingu og í sængurlegu en það hefur ekki talist framkvæmanlegt í íslensku kerfi þó svo heimafæðingarljósmæður komist kannski næst því.“

Í rannsókn sinni komst Inga Vala að því að konur á landsbyggðinni sem hafa orðið fyrir ofbeldi í æsku eiga margar öðruvísi upplifun af barneignarferlinu en konur á höfuðborgarsvæðinu.

„Það kom fram skýr munur á konum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu að því leyti að þeim á landsbyggðinni tókst mun frekar að ná góðum tengslum við ljósmæðurnar og fengu meiri samfellu, sama fólkið sem hugsar um þær, mun fleira heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að ferlinu hjá hverjum og einum hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Það er margt í fæðingarferlinu sem getur orðið kveikjan að erfiðum tilfinningum hjá þolendum.vísir/getty
Inga Vala bendir á að ef ljósmóðir þekkir konuna vel hafi rannsóknir sýnt að þá er líklegra á að hún taki eftir því ef eitthvað er í gangi. 

„Hvort sem það er af félagslegum toga eða ef eitthvað er að fara úrskeiðis í fæðingunni. Þannig að það skiptir máli bæði fyrir konurnar og okkur ljósmæðurnar.“

Þegar aðstoðað er við brjóstagjöf er ljósmóðirin oft að meðhöndla brjóstið á konum sem reynist mörgum þolendum erfitt.  Einnig eiga margar erfitt með að sjá ókunnuga koma við börnin, sérstaklega ef þau eru nakin og berskjölduð í skoðuninni. 

Erfitt að vera fastar í aðstæðunum

„Fæðingarferlið í sjálfu sér hefur í för með sér svo margar kveikjur, það sem á ensku er oftast kallað „triggers“ sem er hugtak sem tengist áfallastreituröskun. Það er til dæmis eins og hríðarnar, verkirnir geta í rauninni minnt á eitthvað í líkamanum. Að vera fastur í aðstæðunum og hafa ekki stjórn sem er þolendum gríðarlega mikilvægt, að geta haft stjórn á aðstæðunum og geta komist burt. Í fæðingu fer maður ekkert burt, maður er fastur í þeim aðstæðum.“

Inga Vala nefnir einnig það sem heilbrigðisstarfsmenn gera í fæðingarferlinu sjálfu sem mögulegar kveikjur fyrir þolendur.

„Við erum að taka blóðþrýsting, við erum að taka blóðprufur, meta legu barnsins með því að þreifa bumbuna og þetta sem er mörgum mjög erfitt og það er þegar við gerum innri mælingu í fæðingu. Þá erum við nefnilega að vaða inn á allra persónulegasta svæðið hvers og eins sem er oft það sem kemur við sögu í ofbeldinu.“

Snerting frá ljósmæðrum, staðan við skoðunina og fleira getur verið kveikja, sama hvað ljósmóðirin er fagleg. Hvað heilbrigðisstarfsfólk segir við konu í fæðingu getur stundum líka haft mikil áhrif.

„Slakaðu á, þá verður þetta ekki alveg jafn vont,“ getur verið það nákvæmlega sama og mantran sem gerandinn notaði. Það er ýmislegt þannig sem getur vakið upp mjög erfiðar tilfinningar hjá þolanda. Þess vegna er svo gott að vera búin að ræða þetta áður og geta sagt „ég er hrædd“ eða „þetta verður mér erfitt“ eða eitthvað slíkt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×