Innlent

Kanaríveður og hvassviðri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bongó og bleyta einkenna veðrið í dag.
Bongó og bleyta einkenna veðrið í dag. Vísir/eyþór

Norðausturhorn landsins mun njóta fádæma veðurblíðu í dag og á morgun ef marka má spákort Veðurstofunnar. Ætla má að hitinn þar kunni að fara yfir 20 stig í dag og jafnvel upp í 22 stig á morgun. Til samanburðar segir á vef Veðurstofunnar að það sé „u.þ.b. hitastigið á Kanaríeyjum þessa dagana.“ Þá verður jafnframt léttskýjað norðaustantil og vindurinn verður hægur.

Hið sama er hins vegar ekki upp á teningnum annars staðar á landinu. Nú í morgunsárið liggja skil við vesturströndina og þeim fylgir allhvöss suðaustanátt og rigning um vestanvert landið. Hviður við fjöll geta farið í 30 m/s svo að aðgátar er þörf á flestum vegum milli þéttbýlisstaða að sögn Veðurstofunnar. Seinni partinn fer þó að draga úr vindi. Hitinn verður þó ágætur, á bilinu 8 til 16 stig.

Það stefnir svo í mun hægari vind á morgun með lítilsháttar vætu sunnan- og vestanlands, en áfram bjart og hlýtt norðaustantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Suðlæg átt 3-10 m/s. Skýjað og smásúld S- og V-lands með hita 8 til 13 stig. Bjartviðri NA-til og hiti 15 til 22 stig.

Á fimmtudag:
Vestlæg átt 3-8 m/s. Víða skýjað og sums staðar súld við ströndina. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast SA-til.

Á föstudag:
Vestlæg átt, 5-13 m/s, hvassast NV-lands og yfirleitt skýjað, en bjart á köflum um landið austanvert. Hiti breytist lítið.

Á laugardag og sunnudag (sjómannadagurinn):
Suðvestlæg átt og dálítil væta V-lands, en bjart með köflum A-til. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á austanverðu landinu.

Á mánudag:
Útlit fyrir hæga suðlæga átt og bjart fyrir norðan, annars úrkomulítið. Hlýnar heldur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.