Innlent

„Ég skal mála allan heiminn elsku mamma"

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Menntasjóður Mæðrastyrksnefndar hefur frá árinu 2012 styrkt yfir hundrað tekjulágar konur til menntunar. Mæðradagurinn er í dag og í tilefni dagsins er forsetafrúin Eliza Reid með leyniskilaboð til allra mæðra. Sjálfboðaliðar Mæðrastyrksnefndar seldu Mæðrablómið 2018 í Kringlunni í dag en markmið sölunnar er að afla fjár fyrir Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar. Hönnuður Mæðrablómsins segir hugmyndina í senn einfalda og skemmtilega.

„Þetta eru leyniskilaboðakerti. Þannig að þegar þú kveikir á kertinu þá bráðnar vaxið og smátt og smátt koma leyniskilaboð í ljós og öll skilaboðin eru tileinkuð mæðrum,“ segir Þórunn Árnadóttir sem hannaði kertið.

Að sögn Guðríðar Sigurðardóttur, formanns menntasjóðsins, eru það oftast einstæðar mæður og tekjulágar konur sem sjóðurinn styrkir til náms. „Sjóðurinn er í raun og veru stofnaður árið 2012 og við höfum verið með svona viðburði á hverju ári í kringum mæðradaginn og við erum búnar að styrkja yfir hundrað konur til náms síðan að sjóðurinn var stofnaður,“ segir Guðríður.

„Við borgum fyrir þær skólagjöld og kaupum skólabækur.“ Meðal viðskiptavina í dag var engin önnur en forsetafrúin Eliza Reid sem keypti kerti fyrir móður sína og tengdamóður. „Mér finnst þetta bara alveg frábært framtak sem að við eigum öll að styðja,“ segir Eliza en hún hafði sjálf aðkomu að hönnun kertanna en hún valdi ein skilaboðanna sem leynast í kertunum, „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma.“ 

„Ég vildi hafa eitthvað íslenskt, eitthvað úr íslensku og þetta sýnir fyrir mér þessi saklausu og bjartsýnu tengsl og ást sem eru til á milli mæðra og barna þeirra,“ segir Eliza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×