Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn leiðir í Kópavogi og Hafnarfirði

Heimir Már Pétursson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur bæði í Kópavogi og Hafnarfirði samkvæmt könnunum Fréttablaðsins sem birtar voru í gær og í dag. Líklegt er að meirihlutinn í Kópavogi héldi en Björt framtíð sem myndar nú meirihluta með Sjálfstæðisflokknum býður fram með Viðreisn í þetta skipti.

Theódóra Þorsteinsdóttir oddviti á lista Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í Kópavogi segir í Fréttablaðinu í dag að henni þætti réttlætanlegt að flokkurinn ræddi við Sjálfstæðismenn að loknum kosningum eftir rúma viku. Ellefu fulltrúar sitja í bæjarstjórn Kópavogs og fengi Sjálfstæðisflokkurinn fimm samkvæmt könnun Fréttablaðsins, Samfylkingin tvo og Framsókn, Píratar, Björt framtíð-Viðreisn og Vinstri græn fengju einn fulltrúa hver flokkur um sig. Miðflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Fyrir Kópavog næðu ekki inn fulltrúum.

Grafík/Stöð 2
Í könnun Fréttablaðsins sem blaðið birti fyrir fylgi flokka í Hafnarfirði í gær er Sjálfstæðisflokkurinn einnig stærstur. Þar er þó mjótt á munum á milli þess hvort Sjálfstæðisflokkurinn missi fimmta mann sinn eða Samfylkingin sinn þriðja mann miðað við stöðuna eins og hún er í dag.

Grafík/Stöð 2
Samkvæmt könnuninni fengju Miðflokkurinn, Framsókn og óháðir, Píratar og Vinstri græn einn mann kjörinn hver listi, en eins og í Kópavogi sitja ellefu manns í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Sex flokkar munu samkvæmt þessu ná kjöri í Hafnarfirði en í dag eiga fjórir flokkar fulltrúa í bæjarstjórn. En Viðreisn og Bæjarlistinn myndu ekki ná inn manni samkvæmt þessari könnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×