Enski boltinn

Butland brjálaður og segir kaup Stoke farsakennd

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Butland eftir að Stoke féll niður um deild.
Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Butland eftir að Stoke féll niður um deild. vísir/getty
Jack Butland, markvörður Stoke City, er allt annað en sáttur með innkaupastefnu félagsins. Stoke féll niður í ensku B-deildina eftir tap um helgina.

Tap gegn Crystal Palace á laugardaginn gerði það að verkum að Stoke mun ekki geta bjargað sér í lokaumferðinni sem fer fram um næstu helgi og mun því leika í B-deildinni á næstu leiktíð.

Enski markvörðurinn er ekki sáttur við framgöngu félagsins á leikmannamarkaðinum og segir að kaupin á markaðnum hafi verið farsi; liðið hafi keypt leikmenn sem ekki hafi verið hægt að stóla á.

„Allir sem taka þátt í ferlinu á kaup á nýjum leikmanni þurfa að líta inn á við. Það hafa verið gerð kaup á leikmönnum sem eru ekki hluti af hópnum af mörgum ástæðum; hvort það sem eru agavandamál eða slök frammistaða,” sagði Butland.

Stoke fékk framherjann Jese Rodriguez fyrir tímabilið sem skoraði eitt mark í 13 leikjum áður en hann lét sig hverfa í launalaust leyfi. Saido Berahino kom frá West Ham og hefur spilað ellefu leiki síðan 2017.

Sagan er ekki öll. Kevin Wimmer, lofandi varnarmaður frá Tottenham, var keyptur fyrir 18 milljónir síðasta sumar en æfir nú með varaliðinu og enn ein kaupin, Giannelli Imbula, miðjumaður sem kostaði 18 milljónir hefur eytt tímabilinu á láni í Frakklandi. Butland hefur fengið nóg.

„Þú verður að skoða það hvaða ákvarðanir er verið að taka og hvernig týpur þú ert að fá. Of margar ákvarðanir á leikmannamarkaðnum undanfarin ár eru óásættanlegar.”

„Svo áður en einhver nýr verður fenginn inn eða einhverjar breytingar verða gerðar þarf að fara vel yfir þetta því þetta er í rauninni bara farsi,” sagði brjálaður Butland að lokum.

Markvörðurinn er í harðri baráttu um að komast á HM með Englandi í sumar en hann er í baráttunni við Nick Pope, Ben Foster, Joe Hart og Jordan Pickford um að verða markvörður númer eitt hjá Englandi í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×