Erlent

Hugmyndir um borgara-arf í Bretlandi

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Kaupmáttur hefur dregist saman á milli kynslóða í fyrsta sinn
Kaupmáttur hefur dregist saman á milli kynslóða í fyrsta sinn Vísir/EPA
Allir breskir ríkisborgarar ættu að fá tæplega fjórtan hundruð þúsund króna eingreiðslu frá ríkinu þegar þeir verða tuttugu og fimm ára. Þetta er tillaga hugveitunnar Resolution Foundation, sem hefur lokið tveggja ára rannsóknarverkefni um landlæga fátækt sem erfist á milli kynslóða í Bretlandi.

Stéttaskipting hefur lengi verið vandamál þar í landi en hugmyndin er að auðvelda börnum hinna efnaminni fasteignakaup og gera þeim þannig kleift að vinna sig út úr fátæktargildrunni. Kaupmáttur Breta á fertugsaldri hefur dregist saman miðað við stöðu foreldra þeirra á sama aldri og er þetta fyrsta kynslóð frá iðnbyltingunni sem býr við lakari kjör en sú á undan.

Eingreiðslunni, sem myndi nema tíu þúsund pundum eða tæplega fjórtán hundruð þúsund krónum, myndu fylgja nokkur skilyrði. Aðeins yrði heimilt að nota peningana til fasteignakaupa, menntunar eða langtímasparnaðar. Hefur þetta verið kallaður borgara-arfur eða citizen‘s inheritance. Samkvæmt tillögum hugveitunnar, sem eru studdar af verkalýðsfélögum og hagsmunasamtökum atvinnurekenda, væri hægt að fjármagna slíkt með úrbótum á innheimtu fasteigna- og erfðaskatts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×