Erlent

Brennandi vagnar daglegt brauð í Róm

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eldur kom upp í rómverskum strætisvagni í gær. Bíllinn er gjörónýtur eftir brunann.
Eldur kom upp í rómverskum strætisvagni í gær. Bíllinn er gjörónýtur eftir brunann. Vísir/Epa
Það sem af er ári hafa níu strætisvagnar í Róm brunnið til kaldra kola. Rómverjar eru þó hættir að kippa sér upp við brennandi vagna, enda brunnu 22 vagnar í borginni í fyrra.

Það eru þó ekki hryðjuverkamenn eða brennuvargar sem bera ábyrgð á faraldrinum. Samgöngustofa Rómarborgar segir að skýringarnar sé að finna í rafkerfum vagnanna, sem margir hverjir eru komnir til ára sinna. Sú skýring heldur þó ekki alveg vatni því að ekki er langt síðan að eldur kom upp í vagni sem var aðeins fimm ára gamall.

Samgöngustofan ítrekar að tilfellum fari fækkandi á milli ára og að enginn hafi slasast í síðasta brunanum, sem varð í gær á verslunargötunni Via del Tritone.

Engu að síður segja fjölmiðlar ytra að verslunareigandi hafi þurft að leita á sjúkrahús með brunasár. Þá óttist notendur vagnanna að þeir kunni einn daginn að brenna inni. Samgöngustofan sé í raun að „leika sér með líf borgaranna,“ eins og haft er eftir einum blaðamanni á vef breska ríkisútvarpsins.

Verkalýðsfélag strætisvagnabílstjóra í borginni segir að bílunum sé lítið sem ekkert haldið við og að þrátt fyrir ítrekaðar rannsóknir virðist ekkert hafa verið gert til að stemma stigu við vandanum. Nánar má fræðast um málið á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×