Skoðun

Þar sem menntun snýst um líf eða dauða

Pierre Krähenbühl skrifar
Heimamenn kölluðu þetta „eftirlitshlið dauðans.” 500 palestínsk flóttabörn hættu lífi sínu á hverjum einasta degi í tvö ár á leið sinni um eftirlitshliðið til að komast í skóla UNRWA – Palestínu-flóttamannahjálparinnar.

Umsjónarmaður skólans sagði: „þessi börn dreymir um að vera læknar. Vígasveitir áreittu börnin, en þau létu það ekki á sig fá því í þeirra augum er menntun spurning um líf eða dauða; eina von þeirra.“

Þessi námfúsu palestínsku flóttabörn voru að koma frá flóttamannabúðunum Yarmouk í úthverfi Damaskus, höfuðborgar Sýrlands. Þar dvöldust lengi 160 þúsund palestínskir flóttamenn en nú eru aðeins 6 þúsund eftir. Árið 2015 náðu liðsmenn svokallaðs Íslamska ríkis búðunum á sitt vald. Umsátrið um Yarmouk vakti skelfingu víða um heim. Allir skólar UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálparinnar, hafa skemmst eða verið eyðilagðir.

Fyrir sex vikum var eftirlitshliðnu lokað og opnað í stutta stund tveimur vikum seinna. Meirihluti 900 barna tók þá erfiðu ákvörðun að yfirgefa heimili foreldra sinna og flytja inn til ættingja og vina hinum meginn víglínunnar til að tryggja að þau yrðu ekki hindruð í að sækja skóla.

Frá skóla á vegum UNRWA.Mynd/UNRWA
Ákveðni þeirra er gott dæmi um hve mikils virði menntun er í augum palestínskra flóttamanna. Þrátt fyrir ótrúlegt óöryggi og tröllvaxinna erfiðleika vegna átakanna í Sýrlandi hafa 48 þúsund nemendur haldið áfram að sækja skóla á vegum UNRWA, en þeir voru 60 þúsund fyrir stríð.

UNRWA hefur fitjað upp á ýmsum nýjungum til þess að halda áfram kennslu í Sýrlandi og víðar, til dæmis með útsendingu á kennslustundum í gervihnattasjónvarpi og sjálfsnámi utan kennslustofu.

Þessi börn eru á meðal þeirra 560 þúsund palestínsku flóttamanna sem Sýrland hýsti fyrir stríð. Meir en 120 þúsund hafa flúið land, þar af rúm 32 þúsund til Líbanons og 17 þúsund til Jórdaníu. Mikill meirihluti þeirra sem eftir eru þurfa á stöðugri mannúðarhjálp að halda til þess að mæta brýnustu þörfum, jafnt mat sem húsaskjól.

Nærri 60% þeirra sem enn eru í Sýrlandi hafa flosnað upp að minnsta kosti einu sinni.

Neyðaráætlun UNRWA miðar að því á þessu ári að tryggja þessar frumþarfir, að útvega matvæli og fjárhagsaðstoð við 418 þúsund Palestínumenn í Sýrlandi, auk þeirra sem eru í Líbanon og Jórdaníu.

Þessu til viðbótar eru reknar 15 læknastöðvar og 11 útibú þeirra í þágu skráðra palestínskra flóttamanna, þrátt fyrir að 8 af 23 heilsugæslustöðvum hafi verið eyðilagðar. 

Þessi viðtleitni til að bjarga mannslífum er í mikilli hættu eftir að einn stærsti stuðningsaðili UNRWA hélt eftir 300 milljón dollara aðstoð á þessu ári. Þessi ákvörðun hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar og enn skortir 165 milljónir dollara til að endar nái saman.

Hún hefur einnig sett strik í reikninginn fyrir kjarnastarfsemina á sviði menntunar, heilsugæslu, aðstoðar og félagslegrar þjónustu í Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu, Vesturbakka Jórdanar og Gasasvæðinu. Skólaganga 526 þúsund palestínskra námsmanna, heilsugæsla 3.5 milljóna sjúklinga og neyðarastoð við 1.7 milljón manns um öll Mið-Austurlönd, hefur verið stefnt í hættu.

UNRWA hefur fitjað upp á ýmsum nýjungum til þess að halda áfram kennslu í Sýrlandi og víðar.mYND/unrwa
UNRWA hefur brugðist við af krafti. Í fyrstu snérum við okkur til fjárveitenda og báðum þá um að flýta greiðslu framlaga þeirra. Margir urðu við þeirri ósk og erum við þeim þakklátir. Við hleyptum af stokkunum herferðinni #DignityIsPriceless og fjáröflunarráðstefna var haldin í Rómarborg. Helstu fjárveitendur brugðust við af mikilli rausn. Fram að þessu hafa fyrirheit um 150 milljón dala aðstoð borist frá ríkjum á borð við Katar, Sádi Arabíu, Tyrkland, Kanada, Noreg, Indland, Sviss, Frakkland og ýmis fleiri. Þetta er umtalsverð og kærkomin viðleitni og ég tel að við höfum skapað fordæmi fyrir aðra fjárveitendur, nýrri og eldri, til þess að taka af skarið og hjálpa okkur að halda áfram þjónustu okkar. Mikið verk er þó óunnið.

Leyfið mér að segja söguna af, Faisal, fimmtíu og sex ára gömlum kennara hjá UNRWA sem dæmi um ákveðni okkar og úrræði. Faisal er frá Dera´a flóttamannabúðunum í suður-Sýrlandi. Hann fer að heiman klukkan hálf sjö á hverjum morgni og fer krókótta leið um tvær víglínur og fjórar eftirlitsstöðvar til þess að sinna kennslu þriðja bekkjar í Dera´a. Þrjár skólabyggingar UNRWA hafa verið eyðilagðar en 300 nemendum er kennt í bráðabirgðaskýlum.

Það tók Faisal tíu mínútur að fara í skólann fyrir stríð. Nú leggja hann og 14 starfsmenn UNRWA sig í lífshættu til að komast til Dera´a til þess að kenna ungum drengjum og stúlkum.

Hugrekki þeirra er dæmigert fyrir fjögur þúsund starsmenn UNRWA í Sýrlandi og hættan er raunveruleg. 18 starfsmenn okkar hafa látist síðan stríðið byrjaði og 23 er saknað.  

Ég er uggandi yfir því að þurfa innan fárra að tilkynna Faisal og öðrum sem hafa lagt sig í lífshættu til að tryggja nauðsynlega þjónstu, að þau missi vinnuna vegna þess að okkur hafi ekki tekist að afla nægs fjár til þess að halda áfram starfi okkur við menntun, heilsugæslu og neyðarastoð. Slíkt yrði með ólíkindum.

UNRWA er holdgervingur vonar og réttinda samfélags sem stendur verulega höllum fæti. Ég hvet heimsbyggðina til að rísa upp til varnar 900 nemendum í Yarmouk og palestínskum flóttamönnum í Sýrlandi.

Reisn þeirra og starf UNRWA skiptir máli.

Pierre Krähenbühl er forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu. Hann er einn af framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna og í sendiefnd samtakanna á alþjóðaráðstefnu um Sýrland sem haldin verður í Brussel 24. og 25.apríl.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×