Innlent

Skipar þverpólitíska nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra, hefur skipað þverpólitíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Fulltrúar allra átta þingflokka á Alþingi eiga sæti í nefndinni en   Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, er formaður nefndarinnar.

Tveir fulltrúar sveitarfélaga sitja einnig í nefndinni ásamt fulltrúum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, og Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, eru tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður er tilnefnd af forsætisráðuneytinu.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að hlutverk nefndarinnar verði meðal annars að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Þá er henni ætlað að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. 

Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og lagafrumvarpi um þjóðgarðinn, þar sem meðal annars er tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×