Skoðun

Að keppa í kerlingavisjón

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Eftir sjö vikna vætutíð hér í spánskum suðursveitum er ég orðinn svo hvekktur að ég fæst ekki til að sleppa takinu á regnhlífinni þó ekki sjáist lengur skýhnoðri á himni. Það sem lék mig verst í vætunni var að hér erum við umkringd ólífuökrum og heimssýn íbúanna tekur mið af því. Rétt eins og allt var metið út frá sauðkindinni í Mosfellssveit í Innansveitarkroníku. Hér er gott veður einungis veður sem hentugt er til ólífuræktunar. Þannig að þegar ég ætlaði að leyfa mér að blóta bannsettri rigningunni var ég tekinn á beinið líkt og villutrúarmaður og kaffærður í sannindum um hvað þetta væri gott fyrir akurinn. Meira að segja í bókabúðinni þar sem einungis ein skrifstofublók var að kaupa bréfaklemmur hlaut ég ámæli.

Það góða við þetta allt saman er þó það að ég fór að skilja hvernig það er að búa í samfélagi sem hefur allt aðra sýn á hlutina en ég. Ég er meira að segja að spá í að temja mér annars konar viðbrögð næst þegar ég heyri einhvern tjá skoðun sem er alveg á skjön við smekk og sýn allra í kringum hann. Prófa jafnvel að sjá hlutina með hans augum.

Það væri jafnvel hægt að keppa í því að tileinka sér sýn þess sem maður síst skilur. Þannig að meðan músíkantar tækjust á í Júróvisjón gæti Hannes Hólmsteinn keppt í kratavisjón, Gylfi Ægisson í hommavisjón, Katrín Jakobs í sjallavisjón, reyndar standa þeir leikar yfir einmitt núna. Og svo færi nú vel á því að Óli Þórðar reyndi kapp sitt í kerlingavisjón. Ég er viss um að margir misstu þá óþarfa hugmyndir sem þeir halda dauðahaldi í, rétt eins og ég með regnhlífina.




Skoðun

Sjá meira


×