Erlent

Lagður inn með lamandi höfuðverki eftir piparátkeppni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Carolina Reaper chillipipar, heimsins sterkasti pipar skv. heimsmetabók Guinnes.
Carolina Reaper chillipipar, heimsins sterkasti pipar skv. heimsmetabók Guinnes. Vísir/Getty
Karlmaður á fertugsaldri var lagður in á sjúkrahús í Bandaríkjunum eftir að hann tók þátt í chillipiparátkeppni þar sem hann borðaði eina af heimsins sterkustu tegund af chillipipar. BBC greinir frá.

Maðurinn át hinn svokallaða Carolina Reaper chillipipar sem heimsmetabók Guinnes staðfesti árið 2013 að væri heimsins sterkasti chillipipar, metinn á 1.569.300 Scoville-stig en til samanburðar er jalapeno-pipar metinn á um 2.000 til 8.000 Scoville-stig.

Strax eftir að maðurinn innbyrti piparinn kúgaðist hann og nokkrum dögum seinna leitaði hann á sjúkrahús með mikinn sársauka í hálsi og svæsna, lamandi höfuðverki sem stóðu aðeins yfir í nokkrar sekúndur í senn.

Skoðun leiddi í ljós að æðar í heila hans höfðu dregist saman vegna piparsins og var maðurinn greindur með svokallað „Afturkræft heilaæða-samdráttarheilkenni,“ sem í einstaka tilvikum getur orsakað heilablóðfall.

Fimm vikum seinna hafði maðurinn jafnað sig að fullu. Læknir sem skoðaði tilvikið segir mikilvægt að þeir sem borði jafn sterkan chillipipar og í þessu tilviki, geri sér grein fyrir því að ekki sé hættulaust að innbyrða mjög sterkan chillipipar. Finni viðkomandi fyrir sársauka í kjölfarið sé mikilvægt að leita sér læknishjálpar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×