Innlent

FC Sækó og FC Kreisí mætast í hörkuleik

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
FC Sækó og FC Kreisí mætast í „geðveikum fótboltaleik” í Egilshöllinni á morgun. FC Sækó er samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans, en tilgangur þess er að efla og auka virkni fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu og að draga úr fordómum.

Liðið safnar nú fyrir ferð til Noregs í maí og hefur því verið efnt til fjáröflunarleiks á morgun þar sem liðið mætir úrvalsliði sem samanstendur af þjóðþekktum einstaklingum en lið FC Kreisí skipa meðal annars núverandi og fyrrverandi landsliðsmenn og konur, skemmtikraftar og stjórnmálafólk. 

Þau Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, Þorvaldur Þorvaldsson, oddviti Alþýðufylkingarinnar, Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Ilmur Kristjánsdóttir, varaborgarfulltrúi Bjartrar framtíðar og aðalmaður í velferðarráði, tóku forskot á sæluna fyrr í kvöld og hituðu upp fyrir leikinn á morgun. 

Allir eru velkomnir á leikinn sem hefst kl. 15:00 í Egilshöll þar sem tekið verður við frjálsum framlögum til styrktar verkefninu. Þeir sem ekki sjá sér fært að mæta geta einnig lagt sitt af mörkum en allar nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×