Innlent

Foreldri fann tvö myndbönd af gassniffinu á Youtube

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Halldór Hauksson er sviðsstjóri meðferðarsviðs Barnaverndarstofu.
Halldór Hauksson er sviðsstjóri meðferðarsviðs Barnaverndarstofu. vísir/valli
Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðarsviðs Barnaverndarstofu, segir að myndbönd sem sýndu unglingsdrengi sniffa gas í sumarbústaðaferð með starfsmönnum meðferðarheimilisins Lækjarbakka hafi fundist á Youtube tæpu ári eftir að atvikið kom upp.

Þá segir hann það ekki rétt sem fram kom í grein Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, blaðamanns, í Fréttablaðinu í gær að starfsmenn viðkomandi barnavernda hefðu ekki verið látnir vita af atvikinu. Þeim hafi verið tilkynnt um atvikið af starfsmönnum Lækjarbakka, að sögn forstöðumanns heimilisins.

Það var foreldri sem fann myndböndin á Youtube í september 2015 en þau voru tekin upp þann 28. október 2014. Þá voru fimm unglingsdrengir, sem dvöldu á Lækjarbakka, í sumarbústaðaferð með starfsmönnum meðferðarheimilisins.

Sjá einnig:Segir myndband sýna börn sniffa gas í sumarbústað með starfsmönnum meðferðarheimilis

Í skriflegu svari Halldórs við fyrirspurn Vísis kemur fram að um kvöldið hafi drengirnir fengið að fara út og vera í nálægð sumarbústaðarins þar sem starfsmennirnir voru. Starfsmennirnir heyrðu í drengjunum en höfðu þá ekki í augsýn allan tímann.

Einn drengjanna kom inn með rauðan blett

Hafi starfsmennirnir talið að drengirnir væru að leika sér og „chilla“ en að sögn Halldórs er alvanalegt á meðferðarheimilum að unglingar fari út á ákveðnum tímum að reykja sígarettur sem þeim eru skammtaðar með samþykki foreldra.

„Þegar drengirnir komu aftur inn í bústaðinn sáu starfsmenn að einn þeirra var með rauðan blett á hálsinum og útskýrði drengurinn það þannig að þeir hafi verið að leika sér í gamnislag. Starfsmenn töldu þetta trúverðuga skýringu og höfðu ekki grunsemdir um annað,“ segir í svari Halldórs.

Þegar verið var að taka saman daginn eftir komu síðan í ljós tveir gaskútar og nokkrir glærir plastpokar sem lágu í moldarbeði nálægt bústaðnum þar sem drengirnir og starfsmenn Lækjarbakka höfðu dvalið. Er komið var heim á Lækjarbakka var lögreglan á staðnum að beiðni heimilisins vegna grunsemda um fíkniefni væru falin þar, sem og vegna dauða tveggja silkihana á heimilinu.

 

„Viðurkenndu drengirnir þá að einhverjir þeirra hafi sniffað gas kvöldið áður. Eftir nánari skoðum var talið að tveir þeirra hafi sniffað og tekið gaskútana við nálæga sumarbústaði,“ segir í svari Halldórs. Þá hafi viðkomandi barnaverndarnefndum verið tilkynnt um atvikið þann 29. október 2014, að því er forstöðumaður Lækjarbakka sagði Halldóri.

Aðspurður til hvaða ráðstafana Barnaverndarstofa hefur gripið til svo koma megi í veg fyrir að svona gerist aftur segir Halldór að farið hafi verið yfir málið með meðferðarheimilinu og verkferlar verið skerptir varðandi gæslu og eftirlit.vísir/anton brink

Taldi að meðferðarheimilið hefði átt að gefa nákvæmari upplýsingar

Segir Halldór að þetta sé í samræmi við verklagsreglur Barnaverndarstofu um að meðferðarheimili tilkynni beint til barnaverndarnefnda og foreldra um tilfallandi atvik.

 

Barnaverndarstofa fékk hins vegar símtal frá starfsmanni barnaverndarnefndar sem vistaði þann dreng sem var með rauðan blett þann 31. október 2014. Hafði starfsmaðurinn fengið upplýsingar um atvikið frá Lækjarbakka daginn sem drengirnir komu úr bústaðnum, en var brugðið þegar hann hitti síðan drenginn næsta eða þar næsta dag, sá rauða blettinn og upplifði að sniffið hefði haft alvarlegri afleiðingar en hann hafði verið upplýstur um.

„Starfsmaðurinn taldi að meðferðarheimilið hefði átt að gefa nákvæmari upplýsingar í tilkynningu sinni um atvikið,“ segir í svari Halldórs. Var þá brugðist við af hálfu Barnaverndarstofu með samtölum og tölvupóstum við forstöðumann Lækjarbakka þar sem óskað var eftir atvikalýsingu og þau tilmæli gefin að allir hlutaðeigandi aðilar, bæði barnaverndarnefndir og foreldrar, yrðu upplýst um málið líkt og verklagsreglur segja til um.

 

Eina undantekningin á þessari reglu er ef að grunsemdir eru um kynferðislega misnotkun á meðferðarheimili en þá blandar Barnaverndarstofa sér í samskipti við barnaverndarnefnd strax á fyrstu stigum, að sögn Halldórs.

Tilkynntu um málið til ráðuneytisins eftir að myndböndin komu fram

Það var síðan í september 2015 sem deildarstjóri barnaverndar drengsins sem hafði fengið rauðan blett sendi svo Barnaverndarstofu tvö myndbönd sem foreldri hafði fundið á Youtube af gassniffinu. Segir Halldór að ljóst hafi verið að um væri að ræða atvikið sem komið hefði upp í október 2014. Hafði Barnaverndarstofu ekki verið kunnugt um myndböndin sem tekin höfðu verið upp á síma af einum drengjanna.

„Svo virtist sem þau hefðu verið fjarlægð af Youtube, þar sem þau fundust ekki þar á þessum tíma og Barnaverndarstofa hefur ekki upplýsingar um hversu lengi þau voru þar.

Barnaverndarstofa skoðaði myndböndin sem barnaverndarnefndin hafði sent og þar mátti sjá að drengirnir voru einir úti í móa í nágrenni sumarbústaðarins að sniffa gas úr kútum með plastpokum. Barnaverndarstofa upplýsti velferðarráðuneytið um alla atburðarásina frá árinu áður og um myndböndin. Velferðarráðuneytið taldi að málið hafi verið eðlilega unnið og sá ekki ástæðu til ferkari úttektar eða afskipta,“ segir í svari Halldórs til Vísis.

Aðspurður til hvaða ráðstafana Barnaverndarstofa hefur gripið svo koma megi í veg fyrir að svona gerist aftur segir Halldór að farið hafi verið yfir málið með meðferðarheimilinu og verkferlar verið skerptir varðandi gæslu og eftirlit.

„Sérstaklega þegar skjólstæðingar eru nýkomnir á heimilið og/eða verið er í aðstæðum þar sem ekki er vitað um alla áhættuþætti, eins og dæmi var um í umræddri sumarbústaðaferð þegar í ljós kom að hægt hafði verið að komast í gas í sumarbústað í næsta nágrenni. Málið var kynnt velferðarráðuneyti strax og myndböndin komu fram 2015 en ráðuneytið taldi ekki ástæðu til frekari úttektar eða afskipta,“ segir í skriflegu svari Halldórs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×