Sport

„Viðbjóður að stunda sömu íþrótt og svona hommahatari“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Israel Folau er lítt hrifinn af samkynhneigðum.
Israel Folau er lítt hrifinn af samkynhneigðum. vísir/getty
Eins og greint var frá í gær mun Israel Folau, landsliðsmaður Ástralíu í ruðningi, ekki fá neina refsingu fyrir það að segja að hommar muni fara til helvítis.

Folau er strangtrúaður og svaraði spurningu á Instagram um hver væri áætlun Guðs með samkynhneigða að þeirra biði dvöl í helvíti. Hann er einnig á móti hjónabandi samkynhneigðra en þá skoðun lét hann opinberlega í ljós á síðasta ári.

Ástralska ruðningssambandið sagði Folau hafa skýrt afstöðu sína og hann ætlaði ekki að særa neinn. Þetta er  einfaldlega eitthvað sem hann trúir á og því verði að bera viðringu fyrir. Ástralska sambandið segist skilja afstöðu hans.

Brad Weber, landsliðsmaður Nýja-Sjálands, er langt frá því að vera jafn skilningsríkur í garð Folau þar sem hann á skyldmenni sem eru samkynhneigð. Hann er fyrsta stóra nafnið í ruðningsbransanum sem gagnrýnir Folau opinberlega. BBC greinir frá.

„Ég er búinn að fá nóg af því að sjá engan tjá sig um þetta. Ég gjörsamlega þoli ekki að þurfa að spila íþróttina sem ég elska með fólki eins og Folau sem segir svona hluti,“ skrifaði Weber reiður á Twitter og hélt áfram:

„Frænkur mínar tvær og konur þeirra eru einhverjar bestu manneskjur sem að ég hef kynnst. Það fyllir mig viðbjóði að hugsa til þess að einhver segi að þær séu á leiðinni til helvítis fyrir það eitt að vera samkynhneigðar,“ segir Brad Weber.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×