Innlent

Forsetinn óskar ungum skákkonum góðs gengis á HM

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og skákkennari stúlknanna, Omar Salama, fylgdust með þegar stúlkurnar, sem keppa á heimsmeistaramóti barna í skák, æfðu sig í dag.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og skákkennari stúlknanna, Omar Salama, fylgdust með þegar stúlkurnar, sem keppa á heimsmeistaramóti barna í skák, æfðu sig í dag. Visir/Vilhelm Gunnarsson
Það var glatt á hjalla á leikskólanum Laufásborg í morgun þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kom í heimsókn til að óska skáksveit leikskólans góðs gengis á heimsmeistaramóti barna í skák.

Fjórar stúlkur af leikskólanum fara á föstudag til Albaníu að keppa á mótinu. Omar Salama, skákkennari stúlknanna og foreldrar fara með í för og dvelja þau í Albaníu í tíu daga.

Guðni þakkaði stúlkunum fyrir bréfið sem hann fékk frá þeim. Þær skrifuðu forsetanum og buðu honum að koma í heimsókn á leikskólann.

Stúlkurnar skrifuðu bréf til foresta í gær. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
„Kæri vinur forseti Íslands. Viltu heiðra okkur með nærveru þinni á morgun, miðvikudag?

Við erum 4 vinkonurnar, 5 ára, að fara á heimsmeistaramót barna í skák í Albaníu. 

Okkur langar að segja þér betur frá því,“ stóð meðal annars í bréfinu til forseta sem hann hafði með sér í heimsóknina.

Guðni óskaði Omari, þjálfara stúlknanna einnig til hamingju með árangurinn en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem leikskólabörn taka þátt á heimsmeistaramóti barna í skák. Stúlkurnar hafa æft stíft síðustu daga undir handleiðslu Omars.

Guðni heilsar stúlkunum á Laufásborg í dag. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Omar sagði það gaman fyrir stúlkurnar að forsetinn skyldi koma og styðja þær og sýna þeim hversu mikilvægt það sé að taka þátt í mótinu ekki aðeins fyrir hönd Íslands heldur líka fyrir þær sjálfar.

Guðni eyddi talsverðum tíma í að spjalla við stúlkurnar og fylgjast með þeim tefla. Þær létu ekkert á sig fá þrátt fyrir nærveru forsetans, fjölda ljósmyndara og tökuliðs sjónvarps.


Tengdar fréttir

Leikskólasveit tefldi á móti grunnskólasveita í fyrsta sinn

Tugir barna á leikskólanum Laufásborg tefla skák á degi hverjum í skólanum. Fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna hefur veg og vanda af kennslunni. Kennari barnanna segir að skákin nýtist til að kenna stærðfræði og landafræði.

Leikskólabörn á leiðinni á HM

Fjórar stelpur af leikskólanum Laufásborg eru á leið á heimsmeistaramót barna í skák sem haldið verður í Albaníu í vor. Þetta er í fyrsta sinn sem leikskólabörn taka þátt á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×