Erlent

Aukin morðtíðni í London áhyggjuefni

Þórdís Valsdóttir skrifar
Morðtíðni í borginni hefur aukist á árinu.
Morðtíðni í borginni hefur aukist á árinu.
Mikil aukning hefur verið á ofbeldisglæpum í höfuðborg Bretlands og í febrúar- og marsmánuðum voru fleiri morð framin í borginni heldur en í New York. Íbúafjöldi borganna er svipaður. BBC greinir frá.

Á þessu ári hafa 46 einstaklingar verið stungnir, skotnir eða á annan hátt særðir til ólífis í London,  samanborið við 50 í New York. Mánaðarleg morðtíðni í New York hefur þó minnkað á milli mánaða á meðan hún hefur aukist í London.

Fyrrverandi lögreglumaður í London líkir aukinni glæpatíðni í London við veiru. Hann segist ekki skilja hvernig hlutirnir hafa farið úr böndunum. „Við höfum séð ofbeldis-veiru breiðast út. Þetta er landlæg sótt í fjölmörgum hlutum samfélagsins,“ segir Leroy Logan, fyrrverandi lögreglumaður. Hann segir að eina leiðin til þess að vinna bug á „veirunni“ sé að lögregluyfirvöld starfi í samstarfi með mismunandi hlutum samfélagsins.

Borgaryfirvöld eru sögð hafa áhyggjur af hnífstungum í borginni en staðhæfa þó að London sé „ein öruggasta borg heims“.

Talsmaður lögreglu í London segir að lögreglan hafi áhyggjur af aukinni morðtíðni í London. „Eitt morð er einu morði ofaukið og við erum að vinna að því með samstarfsmönnum okkar að því að skilja hvers vegna tíðnin hefur aukist og hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir slíka harmleiki,“ segir talsmaðurinn.

Bresk yfirvöld hafa hrint af stað nýrri auglýsingaherferð í þeim tilgangi að fæla ungmenni á aldrinum 10 til 21 árs frá stunguárásum. Í auglýsingunum verða sagðar sögur af unglingum sem orðið hafa fyrir stunguárásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×