Handbolti

Tölfræðin ekki með ÍBV í liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik hjá Fram og ÍBV.
Úr leik hjá Fram og ÍBV. vísir/ernir
Leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn ÍBV hafa væntanlega ekki hoppað hæð sína af kæti þegar ljóst var að liðið myndi mæta Fram í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta.

Tölfræðin er allavega ekki með Eyjakonum í liði. Fram og ÍBV hafa mæst fjórum sinnum í vetur; þrisvar í Olís-deildinni og einu sinni í Coca Cola-bikarnum. Framkonur unnu alla leikina með samtals 16 marka mun. Fram vann engan af þessum leikjum með minna en þriggja marka mun.

ÍBV endaði í 3. sæti Olís-deildarinnar með 30 stig. Liðið vann 14 af 21 leik, gerði tvö jafntefli og tapaði fimm leikjum, þar af þremur á móti Fram.

Íslandsmeistararnir hafa verið nær óstöðvandi eftir áramót en tap fyrir Haukum í fyrsta leik eftir bikarhelgina gerði út um vonir liðsins á að verða deildarmeistarar. Deildarmeistaratitilinn virðist þó gefa liðum lítið þegar á hólminn er komið. Frá 2013 hafa deildarmeistarar aðeins einu sinni staðið uppi sem Íslandsmeistarar (Grótta 2015).

Síðan úrslitakeppnin var tekin upp að nýju 2009 hefur Fram sex sinnum komist í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn og tvisvar unnið þann stóra (2013 og 2017). Fram hefur 21 sinni orðið Íslandsmeistari, oftast allra liða.

ÍBV hefur hins vegar ekki komist í úrslit um titilinn síðan 2005. Eyjakonur voru fastagestir í úrslitum á fyrstu árum þessarar aldar og unnu þá fjóra Íslandsmeistaratitla (2000, 2003, 2004 og 2006).

Á morgun hefst hin undanúrslitarimman, milli deildarmeistara Vals og Hauka. Valskonur unnu tvo af þremur leikjum liðanna í Olís-deildinni og einn endaði með jafn­tefli. Liðin mættust m.a. í lokaumferð deildarinnar þar sem Valur vann sex marka sigur, 28-22, og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn.

Valur hefur ekki farið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn síðan 2014. Það er öllu lengra síðan Haukar komust í úrslitaeinvígið, eða 2005 þegar liðið varð síðast Íslandsmeistari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×