Innlent

Áverkar á líki mannsins sem leiddu hann til dauða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á laugardag.
Frá vettvangi á laugardag. Vísir/Magnús Hlynur
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líki manns sem fannst látinn að Gýgjarhóli II að morgni laugardagsins 31. mars síðastliðnum sýnir að áverkar eru á líkinu sem leitt hafa hann til dauða.

Bróðir hins látna, sem situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins, er grunaður um manndráp. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við Vísi.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi er rannsókn málsins umfangsmikil og unnin í samvinnu lögreglunnar á Suðurlandi, tæknideildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins og og réttarmeinafræðings Landspítala háskólasjúkrahúss.

Ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar um stöðu málsins eða rannsókn þess að svo stöddu að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Bróðir mannsins, ábúandi á Gýgjarhóli II, tilkynnti um lát hans á laugardagsmorgun. Hann var handtekinn ásamt öðrum bróður sem einnig var staddur á bænum.

Á laugardagskvöld var þeim bróður svo sleppt en ábúandinn að Gýgjarhóli II úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Var því lýst yfir þegar Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurðinn að hinn grunaði myndi kæra niðurstöðuna til Landsréttar en að sögn Odds er ekki komin niðurstaða í málið á því dómstigi.

Aðspurður hvort að hann hafi játað að hafa veist að bróður sínum kveðst Oddur ekki vilja fara út í það sem hefur komið fram í yfirheyrslum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Dánarorsök liggur ekki fyrir

Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á Suðurlandi í tengslum við andlát manns á sveitabæ í Biskupstungum í morgun. Krufning fer fram á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×