Skoðun

Í trássi við reglur

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
Ég hitti um daginn erlendan leiðsögumann sem sagðist hafa boðið upp á ferðir með fjölskyldur, 1-4 einstaklinga og aðra örlitla hópa til Íslands í 15 ár, leigt hér hús og bíl, sótt fólkið á flugvöllinn, farið með það í skoðunarferðir, tekið til morgunverð og nesti og eldað svo kvöldmat. Hún sagðist þjónusta þau 24 tíma á sólarhring. Í skoðunarferðum sagðist hún sjá um leiðsögnina því hún hefði komið svo oft til Íslands að hún viti allt um landið.

Ég var sem steini lostin. Á Íslandi eru ekki gerðar neinar kröfur til leiðsögumanna hvað varðar menntun, þekkingu og reynslu. Hver sem er má starfa sem leiðsögumaður hér á landi þó að leiðsögumenn hafi lengi krafist þess að gerðar verði kröfur um menntun og að starfsheitið fái löggildingu. Sjálfstætt starfandi leiðsögumenn búsettir á Íslandi verða hins vegar að hafa ferðaskipuleggjendaleyfi og rekstrarleyfi, leigubílapróf eða meirapróf eftir því hvaða farartæki þeir keyra. Önnur nauðsynleg leyfi eru hópferðaleyfi, leyfi fyrir breytta jeppa eða eðalvagna og/eða ferðaþjónustuleyfi.

Erlendi leiðsögumaðurinn virðist ekki fara eftir lögum og reglum á Íslandi. Hún lágmarkar hversu miklir peningar verða eftir í landinu um leið og hún nýtir sér vinsældir Íslands og selur grimmt. Hún er ekki ein um þetta eins og glögglega sést ef rætt er við þá sem vel til þekkja í ferðaþjónustunni.

Um leið og erlendir aðilar geta svindlað og svínað verða íslenskir leiðsögumenn og ferðaskrifstofur að fara að lögum og reglum, virða kjarasamninga og standa skil á öllum sköttum. Þeim er auðvitað engin vorkunn. En samkeppnisstaðan er skökk. Félagslegt undirboð er eitt af þeim hugtökum sem koma upp í hugann. Þessir aðilar geta boðið ferðirnar á mun lægra verði en Íslendingar og láta ekki kjarasamninga þvælast fyrir sér.

Þetta þarf að laga. Það þarf að gera kröfur til menntunar, helst fá löggildingu. Það þarf líka að sjá til þess að ökuleiðsögumenn geti ekki farið um með örhópa án þess að hafa tilskilin leyfi og réttindi.

Höfundur er blaðamaður og ökuleiðsögumaður




Skoðun

Sjá meira


×