Handbolti

Svensson um Svíagrýluna: „Þetta er svolítið fyndið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tomas Svensson var hinn hressasti í Víkinni í gær.
Tomas Svensson var hinn hressasti í Víkinni í gær. vísir/rakel ósk
Tomas Svensson, fyrrverandi markvörður sænska landsliðsins í handbolta, var einn hataðasti maður Íslands um árabil eins og allir félagar hans í gullaldarliði Svía.

Svensson var lykilmaður í sænska liðinu sem varð tvívegis heimsmeistari og fjórum sinnum Evrópumeistari en hér á landi voru þessir menn hluti af hinni svokölluðu Svíagrýlu.

Sjá einnig:Tomas Svensson: Þurfum að passa upp á Viktor Gísla

Staffan „Faxi“ Olsson var ímynd grýlunnar en Svensson og félagar hans í markinu, eins og Peter Gentzsel, vörðu allt er á markið kom leik eftir leik við litla hrifningu íslensku þjóðarinnar.

Svona var Svensson alltaf fyrir í gamla daga.vísir/getty

Líkar vel við Ísland

Þegar blaðamaður hitti Svensson á æfingu íslenska liðsins í gær spurði hann Svíann einfaldlega hvort hann áttaði sig á því hversu illa Íslendingum var við hann og þetta sænska lið; svíagrýluna.

„Nei, ég áttaði mig kannski ekki alveg á því en þá var ég líka að spila fyrir Svíþjóð og einbeitti mér að því,“ sagði Svensson og hló dátt. „Þetta er svolítið fyndið en leikirnir á móti Íslandi voru alltaf frekar góðir.“

Íslenska liðið drap Svíagrýluna í tveimur leikjum árið 2006 í umspili um sæti á HM 2007 í Þýskalandi og lagði hana svo til grafar ári síðar í leik um sæti á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

„Okkur gekk vissulega vel með Ísland í svolítinn tíma en undir lok ferilsins hjá mér töpuðum við stórum leikjum fyrir Íslandi 2006 og 2007 og misstum af tveimur stórmótum. Svona er þetta bara í íþróttum,“ sagði Svensson sem hefur margsinnis komið til Íslands og kann vel við sig.

„Fyrsta minningin mín af Íslandi er frá 1986 þegar ég kom hingað að spila fyrst. Ég hef oft komið hingað og alltaf líkað vel. Mér líkar vel við Ísland,“ sagði Tomas Svensson.


Tengdar fréttir

Gummi Gumm: Framtíðin er björt

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, þurfti að gera breytingar á hópnum sem fer til Noregs og tekur þátt í Gulldeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×