Handbolti

Aron: Hrikalega ánægðir að fá Gumma sem er einn besti þjálfari heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson á æfingu í Víkinni í vikunni.
Aron Pálmarsson á æfingu í Víkinni í vikunni. vísir/rakel ósk
Aron Pálmarsson, besti leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, hefur átt erfitt tímabil hjá félagsliði sínu Barcelona sem stafar helst af því að hann fékk ekki að byrja þar fyrr en seint um síðir vegna deilna við fyrrverandi félag sitt, Veszprém.

Aron hefur svo glímt við smávægileg meiðsli eftir komuna til Katalóníu og aldrei komist almennilega í takt við hlutina.

„Alltaf þegar að maður hefur verið að komast í sitt besta form hef ég tognað á nára til dæmis. Það hafa alltaf komið einhver bakslög. Ég skal viðurkenna það, að þetta tímabil hefði getað verið betra. Nú þarf ég bara að reyna að klára þetta með stæl,“ segir Aron.

Miklar kröfur

Börsungar eru úr leik í Meistaradeildinni eftir tap á móti Montpellier í 16 liða úrslitum en Börsungar eru vanir því að komast að minnsta kosti í undanúrslit. Þar er stefnt að því að vinna allt sem í boði er.

„Það eru gríðarlega miklar kröfur gerðar. Við duttum úr Meistaradeildinni í 16 liða úrslitum en erum búnir að vinna deildina. Það eru sex leikir eftir í deildinni og tveir mánuðir eftir þannig það er ekki mikil gulrót í gangi,“ segir Aron.

„Það var mikið áfall að detta út en það eina sem hægt er að gera úr þessu er að stíga upp og klára deildina með sóma. Svo er bara að koma tvíefldir á næsta ári.“

Bestur í heimi

Aron vann til bronsverðlauna á EM 2010 með íslenska landsliðinu undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar og skyttan magnaða fagnar því að fá Guðmund aftur.

„Ég hef spilað fyrir hann og svo á móti honum. Það er frábært að fá hann aftur inn. Hann hefur sýnt það í gegnum árin að hann er einn besti þjálfari í heimi,“ segir Aron.

„Ég hef alltaf fílað pælingar Guðmundar. Mér hefur liðið vel hjá þeim og hann hefur náð árangri. Við erum hrikalega ánægðir með þetta og það hefur sést á æfingum,“ segir Aron Pálmarsson.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×