Umfjöllun og viðtöl: Valur - Keflavík 87-80 | Valskonur unnu aftur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir.
Guðbjörg Sverrisdóttir. Vísir/Andri Marinó
Valur tók 2-0 forystu í einvígi sínu gegn Keflavík núna í dag í undanúrslitum Dominos deildar kvenna í körfubolta. Leikurinn fór fram í Schenker-höllinni, heimavelli Vals.

Leikurinn var hnífjafn nær allann leikinn en bæði lið áttu erfitt með varnarleik sinn á meðan sóknarleikurinn gekk eins og í sögu.

Keflavík var með forystuna nær allan fyrri hálfleik en þó voru Vals stelpur aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 48-50, Keflavík í vil, en eins og má bersýnilega sjá vantaði ekkert upp á stigin í dag.

Valur kom þó sterkt inn í leikinn eftir hlé og var með forystuna að loknum 3. leikhluta, 63-62. Valur endaði svo á að taka öll völd í 4. leikhluta og fór með góðan, 87-80, sigur af hólmi.

Staðan er því 2-0, Val í vil, í einvíginu en næsti leikur fer fram á þriðjudaginn í Keflavík og sigri Valur þá er einvíginu endanlega lokið.

Afhverju vann Valur?

Valur virkaði einfaldlega sem sterkara liðið á lokakaflanum. Liðin eru jöfn á flestum vígstöðum tölfræðinnar en Valur sker sig úr á nokkrum stöðum. T.a.m. tók Valur einungis 11 þriggja stiga skot og nýtti 5 af þeim. Keflavík tók aftur á móti 36 þriggja stiga skot og nýtti einungis 11 af þeim.

Hverjir stóðu upp úr?

Kanarnir hjá báðum liðum voru frábærir. Aaliyah hjá Val skoraði 31 stig og tók 11 fráköst ásamt því að vera með 5 stoðsendingar. Brittany skoraði 22 stig, var með 9 fráköst og 9 stoðsendingar.

Þessar tvær eiga eftir að hafa mikið um það að segja hvernig næsti leikur liðanna fer.

Hvað gekk illa?

Þriggja stiga nýting Keflavíkur var stórkostleg í fyrri hálfleik. 9 af 20 skotum fóru ofan í körfuna. „Ekki breyta því sem gengur vel“ eða einhver álíka spakmæli hafa vafalauast birst í einhverjum páskaeggjum síðustu helgi en þetta hefði Keflavík betur átt að hunsa.

Í lok leiksins var Keflavík með 11 þriggja stiga körfur í 36 tilraunum. Maður var að verða geðbilaður á að horfa á þær reyna aftur og aftur erfið skot í stað þess að einfalda leikinn sinn eilítið.

Einnig voru varnir beggja liða mjög mistækar á löngum köflum í leiknum.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á þriðjudaginn og þá kemur í ljós hvort Keflavík heldur lífi í einvíginu eða hvort Valur einfaldega tryggi sæti sitt í úrslitunum.

Valur-Keflavík 87-80 (25-26, 23-24, 15-12, 24-18)

Valur:
Aalyah Whiteside 31/11 fráköst/5 stoðsendingar, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 20/8 fráköst/5 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 13/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 10/5 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 5/4 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 4/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 2/5 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 2.

Keflavík: Brittanny Dinkins 22/9 fráköst/9 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 15, Embla Kristínardóttir 14/4 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 12/6 fráköst/6 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 11/7 fráköst/3 varin skot, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4/6 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 2.

Darri Freyr Atlason.Vísir/Andri
Darri Freyr: Verðum að passa okkur

„Bara ánægður að vera 2-0 yfir. Eins og alltaf reynum við að vinna hvern einasta leik og það var gott að það gekk eftir í dag,“ sagði Darri, þjálfari Vals, hin rólegasti eftir sigur stelpnanna hans.

Valur er nú með 2-0 forystu á Keflavík og geta með sigri á þriðjudaginn tryggt sæti sitt í úrslitaeinvígi deildarinnar.

„Það er gott að þurfa ekki að fara til Keflavíkur og núlstilla seríuna. Við þurfum samt að passa okkur. Megum ekki finna fyrir neinni mettun þó svo að við séum búnar að vinna fyrstu tvo leikina,“ sagði Darri sem segir að vörnin verði að spila betur í næsta leik ef ekki á illa að fara.

„Í fyrri hálfleik vorum við seinar þegar við vorum að loka á Brittany þegar hún var að hreyfa boltann. Svo breyttist það og þá fór okkur að ganga betur.“

Darri hrósaði svo stelpunum og segir að stemmingin og viðhorfið innan liðsins sé ástæða til þess að vera bjartsýnn.

En er þá ekki málið að klára bara málið í næsta leik og sópa þar með Keflvíkingum?

„Það væri skemmtilegt. Það er ekki höfuðatriði. Það er bara að komast í gegnum þessa seríu. Það er ekkert gefins í þessu.“

Sverrir Þór Sverrisson.Vísir/Andri Marinó
Sverrir Þór: Eigum eitt líf eftir

„Svekkjandi að klára þetta ekki. Þetta var auðvitað hörkuleikur en við hefðum átt að gera betur á lokakaflanum,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur eftir tap liðsins gegn Val í kvöld, 87-80.

„Staðan er 2-0 í einvíginu. Við eigum eitt líf eftir. Núna er ekkert hægt að hugsa neitt lengra en næsti leikur,“ sagði Sverrir en tapi liðið hans í næsta leik er ljóst að Keflavík er á leið í sumarfrí.

Hann sagðist vera ánægður með sóknarleikinn heilt yfir en að liðið verði að bæta sig á hinum enda vallarins.

„Við fáum alltof mörg stig á okkur. Skorum 80 stig. Ég hefði viljað sjá okkur spila betri vörn og vinna leikinn þannig,“ sagði Sverrir og viðurkennir að varnarleikurinn sé ákveðin hausverkur.

„Við erum ekki að spila nógu góða vörn. Við klárum voðalega sjaldan að verjast sókn. Við erum að verjast vel en þegar það eru 6 sekúndur eftir á skotklukkunni þá kemur einhver leki. Einhver fer að slaka á og missir mann í skot eða framhjá sér. Þess vegna erum við 2-0 undir.“

Lokaorð Sverris gefa þó til kynna að Keflavík ætli svo sannarlega ekki að leggjast niður í þessu einvígi.

„Okkur langar ekki í frí. Nú er okkar að nýta það.“

Aalyah Whiteside.Vísir/Andri
Aaliyah: Spiluðum eins og lið í dag

Aaliyah Whiteside var hreint út sagt mögnuð í, 87-80, sigri Vals á Keflavík í dag en hún skoraði 31 stig.

„Við spiluðum eins og lið í dag. Allir lögðu sig fram og vonandi klárum við þetta í næsta leik til að komast í úrslitin.“

Hún tók í sama streng og Darri, þjálfari liðsins og sagði að varnarleikurinn yrði að vera betri í næsta leik liðanna.

„Við gáfum þeim 80 stig. Þær byrjuðu vel og réðust strax á okkur. Við gerðum nokkur mistök í vörn og misstum nokkur fráköst þannig við þurfum að laga það fyrir næsta leik.“

Sem fyrr segir var Aaliyah frábær og skoraði 31 stig en hún var einnig með 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Hæst innan liðsins í öllum flokkum.

„Bara ánægð að hjálpa okkur að ná í sigurinn. Ég hef bara verið hérna síðan í janúar og finnst ég vera að passa vel inn í. Það er góð tilfinning að vinna.“

Thelma Dís Ágústsdóttir.Vísir/Andri
Thelma Dís: Það er nóg eftir

Thelma Dís Ágústsdóttir segir að einvígi Vals og Keflavíkur sé hvergi nærri lokið eftir að Keflavík lenti 2-0 undir í einvígi liðanna í úrslitakeppni Dominos deildar kvenna.

„Það er leiðinlegt að vera 2-0 undir í einvíginu en það er nóg eftir. Við getum spilað miklu betur en við gerðum í dag og erum spenntar að komast heim og spila.“

Hún tók undir með Sverri, þjálfara liðsins, sem sagði Keflavík ekki hafa klárað vörnina nógu oft allar 24 sekúndurnar á skotklukkunni er Valur var í sókn.

„Við kláruðum ekki varnirnar. Spiluðum góða vörn í svona 15-16 sekúndur og svo gáfum við þeim auðvelt skot eða sóknarfrákast.“

Sverrir var á dögunum kynntur sem næsti þjálfari karla liðs Keflavíkur en Thelma segir það ekki vera að hafa nein áhrif á leik liðsins.

„Hann lét okkur vita sjálfur þannig við vissum þetta. Þetta ætti ekkert að trufla okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira