Fótbolti

Stelpurnar gistu í Köben áður en þær komu til Færeyja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar ætla sér sex stig í þessari ferð.
Íslensku stelpurnar ætla sér sex stig í þessari ferð. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er komið til Færeyja þar sem liðið mætir heimakonum í undankeppni HM 2019 á morgun.

Íslenska liðið vann 2-0 sigur á Slóveníu á föstudaginn og stelpurnar eiga að landa þremur stigum til viðbótar í leiknum í Færeyjum.

Íslenska liðið æfði í Slóveníu á laugardagsmorgun og hélt svo áleiðis til Zagreb seinni partinn áður en flogið var til Kaupmannahafnar.

Stelpurnar gistu í Kaupmannahöfn í eina nótt og skoðuðu sig aðeins um í þessari fyrrum höfuðborg Ísland áður en flogið var til Færeyja seinni partinn í gær en þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Stelpurnar æfðu síðan í dag á keppnisvellinum sem er Tórsvöllur í Þórshöfn.

Stelpurnar sem leika hér heima eru ekki byrjaðar að spila í Pepsi-deildinni en stelpurnar í færeysku deildinni eru aftur á móti búnar með fjóra leiki.

Færeyska deildin hófst 11. mars og hafa verið leiknar 4 umferðir í efstu deild kvenna, „Betri deildin“, en hana skipa 6 lið.  Í efstu sætunum og taplaus enn sem komið er eru KÍ og EB/Streymur/Skála.  Síðarnefnda liðið er núverandi meistari og rauf þar með ótrúlega sigurgöngu KÍ sem hafði unnið deildina 17 ár í röð.

Flestir leikmenn í færeyska hópnum sem mætir Íslendingum eru frá EB/Streymur/Skála eða fjórir talsins og þrír koma frá KÍ. Þá eru sex leikmenn sem koma frá erlendum félögum.

Þetta verður annar leikur þjóðanna í þessari undankeppni því Ísland og Færeyjar mættust á Laugardalsvelli í september á síðasta ári. Ísland vann þá 8-0 sigur.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Elín Metta Jensen og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu öll tvö mörk í leiknum og þær Sara Björk Gunnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir voru með eitt mark hvor.    

Leikur Íslands og Færeyja hefst klukkan 15.00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×