Fótbolti

Þrír Íslendingar en enginn í sigurliði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Ingvi var á skotskónum í fyrsta leiknum en náði ekki að fylgja því eftir í dag.
Arnór Ingvi var á skotskónum í fyrsta leiknum en náði ekki að fylgja því eftir í dag. vísir/getty
Þrír Íslendingar voru í eldlínunni á Norðurlöndunum í kvöld. Nýliðar Start töpuðu í Noregi og sænsku meistararnir í Malmö gerði 1-1 jafntefli við AIK á heimavelli.

Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn og Aron Sigurðarson fyrstu 70 mínúturnar er Start tapaði 1-0 gegn Lilleström á útivelli. Eina mark leiksins kom á 32. mínútu.

Gary Martin spilaði síðustu átta mínúturnar hjá Lilleström sem eru með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina. Start hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa unnið fyrsta leik deildarinnar.

Í Svíþjóð gerðu Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö 1-1 jafntefli við AIK. Arnór Ingvi spilaði allan leikinn en Malmö er með fjögur stig eftir tvo leiki.

Haukur Heiðar Hauksson var ekki í leikmannahópi AIK en hann varð faðir í gær. AIK er einnig með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×