Lífið

Metaðsókn á Aldrei fór ég suður

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fyrri tónleikar hátíðarinnar fóru fram í Kampa skemmunni í gærkvöldi. Nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna, stelpurnar í Ateríu, opnuðu hátíðina og á eftir þeim fylgdi fjöldi tónlistarmanna og plötusnúða. Hörðustu rokktónarnir voru geymdir þar til síðast þegar Dimma steig á svið.

Friðrik Dór kom fram á hátíðinni í fyrsta skipti, en sannarlega ekki í síðasta skipti en mannfjöldinn tók hraustlega undir þegar hann söng.

„Ég hafði svolitlar áhyggjur af því að vera einn með gítarinn allan tímann en við náðum að fylla í sameiningu vel upp í rýmið og orkan var mikil og góð," segir Frikki Dór.

Hátíðin hefur farið fram með miklum sóma, samkvæmt lögreglunni á Ísafirði og hafa engin fíkniefna- eða ofbeldisbrot komið á hennar borð. 

Talið er að um fimm þúsund gestir séu í bænum sem er ríflega tvöfaldur íbúafjöldi. Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjórinn sjálfur, er í sjöunda himni og hlakkar til tónleikanna í kvöld.

„Og svo er mætingin fram úr öllum vonum. Ég er blown away eins og maður segir á góðri íslensku.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×