Skoðun

Svik og svindl

Oddný Harðardóttir skrifar
Félagsleg undirboð eru snyrtileg orð yfir þann glæp sem á sér stað þegar fólk er rænt launum sínum og réttindum. Því miður virðist sem slíkum málum sé að fjölga töluvert hér á landi og tengist þeim uppgangi sem er í samfélaginu, ekki síst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Ódýra vinnuaflinu er ætlað að auka gróða fyrirtækjanna og bæta samkeppnisstöðu þeirra. Fórnarlömbin eru oft hrædd við að tjá sig og eru í raun þau einu sem taka áhættu með glæpnum. Þau lenda í vandræðum fyrir að segja frá, eru tryggingalaus og missa vinnuna.

Hagvöxtur hér á landi hefði ekki orðið undanfarin ár nema fyrir innflutt vinnuafl. Það er óþolandi að velferð okkar sé byggð að hluta til á þjófnaði, þar sem fyrirtæki flytja inn fólk og stela af því laununum. Þetta getum við ekki látið óátalið eða afskiptalaust. Við getum ekki látið viðgangast að hagvöxtur á Íslandi sé borinn uppi með svikum og svindli.

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði og Samtök jafnaðarmanna og launþegahreyfinga á Norðurlöndunum, hafa haft félagsleg undirboð til umfjöllunar á liðnum misserum. Í okkar huga leikur enginn vafi á því að félagsleg undirboð ógna sjálfum grundvelli norræna módelsins sem einmitt byggir á afkomuöryggi allra og samstöðu um réttindi og kjör sem gilda fyrir alla. Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða góðra samfélaga og svikin verður að stöðva hér á landi. Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Félagslegt undirboð er glæpur sem kallar á skýr viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld og stofnanir, samtök atvinnulífsins og stéttarfélög verða að viðurkenna það í raun. Þau eru glæpur gagnvart fólki, bæði fjárhagslegur og félagslegur, og viðbrögðin eiga að vera í samræmi við það. Svik og svindl á vinnumarkaði er í fullkominni andstöðu við velferðarsamfélag sem byggir á trausti, virðingu, samstarfi, jafnrétti og jöfnuði.

Höfundur er formaður þingflokks Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×