Skoðun

Stuðningur við börn og ungmenni í námi skiptir máli

Steinn Jóhannsson skrifar
Velgengni í námi er hverju barni og ungmenni mikilvæg og foreldrar eiga að setja það í forgang að styðja börn sín í námi til að auka líkur þeirra á góðu veganesti inn í framtíðina. Við sem foreldrar förum ekki varhluta af neikvæðri umfjöllun í fjölmiðlum er varðar menntun barna okkar sbr. yfirvofandi kennaraskort, lakari árangur á alþjóðlegum samanburðarprófum, dvínandi áhuga á lestri og háu brotthvarfi ungmenna úr námi svo eitthvað sé nefnt.

Við sem foreldrar getum haft jákvæð áhrif á þessa þróun t.d. með því að sinna betur námi og námsgengi barna okkar. Það getum við meðal annars gert með því að sýna skólagöngu barna okkar áhuga t.d. með því að ræða við þau um skóladaginn, námsefnið, gefa okkur meiri tíma til að lesa með þeim og fyrir þau. Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn er mikill megum við ekki gleyma mikilvægi þess að gefa okkur tíma fyrir gæðastundir með börnunum okkar. Þetta krefst vissulega tíma og skipulags en óhætt er að ætla að hægt sé að líta á þann tíma sem fjárfestingu til framtíðar.

Það er skylda okkar sem foreldra að vekja áhuga barna okkar á lestri og bókmenntum. Börn sem sýna lestri áhuga öðlast jafnan meiri færni í lestri sem leiðir til aukinnar hæfni er varðar lesskilning og lestrarhraða.

Foreldrum hættir í einhverjum tilvikum til að sleppa takinu af börnum sínum þegar þau innritast í framhaldsskóla og því miður sjáum við sem erum í forsvari fyrir framhaldsskóla allt of mörg dæmi þess efnis. Á framhaldsskólaárum ganga börn í gegnum miklar breytingar og þá er ekki síður mikilvægt að fylgjast vel með því hvernig þeim gengur í námi og hvað þau aðhafast í tómstundum. Aukið aðhald og áhugi á því sem þau eru að gera getur virkað sem hvatning sem m.a. skilar sér í bættum námsárangri.

Það er auðvelt að gagnrýna skólakerfið fyrir það sem miður fer og því miður fá jákvæðar fréttir um skólakerfið oft og tíðum litla umfjöllun í fjölmiðlum. Sem dæmi má nefna nýbreytni í skólastarfi, framúrskarandi kennsluhættir og fréttir af góðum kennurum.

Það er vandasamt hlutverk að undirbúa börn og unglinga fyrir líf og störf í lýðræðissamfélagi. Það hlutverk er samvinnuverkefni foreldra, skóla og annara þeirra er koma að uppeldi barna og ungmenna. Um leið og við leggjumst á eitt um að styðja betur við börnin okkar þá fullyrði ég að lestrarfærni og áhugi á lestri styrkist, virðing fyrir kennarastarfinu eykst og gerir það eftirsóknarverðara og brotthvarf nemenda úr skóla minnkar. Um leið og þessi þróun verður að veruleika þá mun jákvæðu fréttunum um skólamálin fjölga.

Höfundur er foreldri og konrektor MH




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×