Innlent

Þörungaverksmiðjan dæmd til að greiða tæpar 30 milljónir vegna skipaviðgerða

Birgir Olgeirsson skrifar
Skipaviðgerðafyrirtækið Þorgeir og Ellert, sem staðsett er á Akranesi, hafði betur gegn Þörungaverksmiðjunni hf. í Hæstarétti. Myndin er af höfninni á Akranesi.
Skipaviðgerðafyrirtækið Þorgeir og Ellert, sem staðsett er á Akranesi, hafði betur gegn Þörungaverksmiðjunni hf. í Hæstarétti. Myndin er af höfninni á Akranesi. Vísir/Getty
Þörungaverksmiðjan hf. í Reykhólahreppi hefur verið dæmd til að greiða skipaviðgerðafyrirtækinu Þorgeiri og Ellert hf. á Akranesi 26,6 milljónir króna. Fyrirtækin deildu um uppgjör á verksamningi um endursmíði og viðgerðir á skipinu Fossá ÞH-362, sem er í eigu Þörungaverksmiðjunnar, og aukaverkum sem þeim tengdust. Þá var einnig deilt um uppgjör á samningi sem fyrirtækin höfðu gert um skil og afhendingu á skipinu.

Þörungaverksmiðjan hafði rift verksamningnum vegna ætlaðra vanefnda Þorgeirs og Ellerts á samningnum og útgáfu tilhæfulausra reikninga. Deila fyrirtækjanna fór alla leið fyrir Hæstarétt en í dómi réttarins kom fram að framganga Þorgeirs og Ellert við verkið hefði ekki leitt til tafa eða raskað hagsmunum Þörungaverksmiðjunnar þannig að það hefði réttlætt riftun á verksamningnum.

Var Þörungaverksmiðjunni gert að greiða Þorgeiri og Ellert greiðslur vegna ýmissa samningsverka og viðbótarverka og var sú niðurstaða í flestum atriðum reist á mati yfirmatsmanna en í nokkrum atriðum á mati undirmatsmanna. 

Var Þörungaverksmiðjan talin hafa ofgreitt fyrir verkið að hluta og var ofgreiðslan dregin frá kröfu Þorgeirs og Ellerts.

Þá var Þörungaverksmiðjan dæmd til að greiða Þorgeiri og Ellert samtals þrettán milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×