Innlent

Fagnar breyttri skilgreiningu á nauðgun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir það fagnaðarefni að Alþingi hafi ákveðið að breyta ákvæði almennra hegningarlaga er snýr að nauðgun. Hún segir fyrst fremst um táknræna breytinga að ræða sem sendi mikilvæg skilaboð út í samfélagið.

Alþingi samþykkti í dag frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum þess efnis að samþykki verði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun. Í 194. grein laganna sagði áður að „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun“.

48 af 49 þingmönnum sem viðstaddir voru atkvæðagreiðsluna í dag að lokinni þriðju umræðu greiddu atkvæði með því að fyrrnefnd setning yrði á þessa leið:„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun.“

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir um mikilvæga breytingu að ræða.

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst táknræn breyting og hún er jákvæð. Mitt embætti tók undir þessa breytingu og lagði til að þetta yrði samþykkt. Þetta eru ákveðin skilaboð sem að löggjafinn er að senda út í samfélagið. Það er nauðgun að hafa samfarir eða kynferðismök við einhvern án hans samþykkis,“ segir Kolbrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×