Körfubolti

Matthías Orri: Ömurlegt að Hlynur hafi ekki getað spilað

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. Vísir/Bára
„Ég var ekki í sambandi til að byrja með. Þetta er búið að vera löng sería og ég er bara orðin svolítið þreyttur. En það skiptir ekki máli núna. Ég steig upp í 4. leikhluta og skoraði 7 stig þegar liðið þurfti á mér að halda,“ sagði Matthías Orri, leikmaður ÍR, eftir nauman, 69-71, sigur á Stjörnunni þar sem sigurinn réðst á sigurkörfu á lokasekúndu leiksins.

Lykilinn að sigrinum lá í fráköstunum en ÍR gjörsamlega pakkaði saman Stjörnunni í dag á þeim bænum en ÍR tók 59 fráköst gegn einungis 39 fráköstum frá Stjörnunni.

Af þessum 59 fráköstum voru 20 sóknarfráköst en Stjarnan náði einungis fimm slíkum.

„Þetta snérist við í kvöld. Þetta er búið að vera hinsegin alla seríuna. Hlynur auðvitað frábær að taka fráköst,“ sagði Matthías og var þá að tala um Hlyn Bæringsson, leikmann Stjörnunnar, sem gat ekki spilað í kvöld eftir þungt höfuðhögg sem hann fékk í síðasta leik liðanna.

„Ég vil nefna það að það var ömurlegt að Hlynur Bæringsson hafi ekki getað spilað í kvöld. Það er ömurlegt að þurfa að vinna þegar hann er ekki inn á vellinum,“ sagði Matthías og hélt áfram.

„Við vonum innilega að þetta sé ekki alvarlegt því þetta er frábær karakter. Landsliðsfyrirliði og leikmaður sem allir elska. Það dregur smá úr sigrinum að vinna án hans. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×