Innlent

„Við héldum að þetta myndi ganga mun hraðar fyrir sig“

Birgir Olgeirsson skrifar
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga.
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga. Vísir/Egill
„Við erum bara í sambandi við Spánverjana og það er bara verið að vinna í því,“ segir Karl Steinar Valsson, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um beiðni íslenskra stjórnvalda þess efnis að rannsókn á máli Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur flytjist frá Spáni til Íslands

„Þetta tekur talsvert lengri tíma en við töldum en það hlýtur að fara að sjást fyrir endann á því,“ segir Karl Steinar.

Um miðjan febrúar síðastliðinn sendi dómsmálaráðuneyti Íslands formlega réttarbeiðni til yfirvalda á Spáni vegna rannsóknar á „Skáksambandsmálinu“ svokallað en eiginmaður Sunnu er grunaður um aðild að því máli og situr enn í gæsluvarðhaldi vegna þess. Í beiðninni var farið fram á að íslensk lögregluyfirvöld tækju alfarið yfir rannsókn málsins.

Sunna Elvíra hefur verið í ótímabundnu farbanni á Spáni vegna rannsóknar málsins. Hún lamaðist eftir fall á heimili sínu í Malaga á Spáni 17. janúar síðastliðinn og hefur verið í ótímabundnu farbanni þar í landi grunuð um aðild að fíkniefnasmygli.

Sunna var flutt á sjúkrahús í Malaga en barist var lengi fyrir því að hún yrði flutt á hátæknisjúkrahús þar sem hún fengi viðeigandi meðhöndlun.

Hún var flutt á sjúkrahús í Sevilla í febrúar síðastliðnum en í upphafi þessa mánaðar fengust þær fregnir að hún væri lömuð fyrir lífstíð.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi í febrúar að ef rannsókn málsins myndi flytjast til Íslands yrði ekki ástæða fyrir spænsk stjórnvöld að halda Sunnu í farbanni þar í landi.

Aðspurður hvers vegna það hefur tekið svo langan tíma að afgreiða þessa réttarfarsbeiðni dómsmálaráðuneytisins svarar hann: „Spænsk stjórnsýsla, það er ekki flóknara en það. Það er engin önnur fyrirstaða í því. Það þarf að afgreiða þetta með formlegum hætti varðandi yfirtöku og millitöku á málum. Við héldum að þetta myndi ganga mun hraðar fyrir sig.“


Tengdar fréttir

Sunna komin í endurhæfingu

Sunna Elvíra Þorkelsdóttir var flutt á annan spítala á Spáni skömmu fyrir helgi eftir langa bið eftir að komast í viðeigandi meðferð og endurhæfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×