Fótbolti

Liverpool maðurinn Emre Can: „Þetta er ekki satt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emre Can
Emre Can Vísir/Getty
Mikið hefur verið skrifað um framtíð þýska miðjumannsins Emre Can hjá Liverpool og margt af því er ekki satt.

Um tíma var kappinn á leiðinni til Juventus á Ítalíu en síðan hefur hann ekki misst úr margar mínútur í leikjum Liverpool. Jürgen Klopp vill halda honum en þá þarf að setja saman nýjan samning.

Emre Can var með þýska landsliðinu en yfirgaf herbúðir þýska landsliðsins til að huga að bakmeiðslum.





Samningur Emre Can og Liverpool rennur út í sumar og nýjustu fréttir voru að Þjóðverjinn þyrfti fá verulega launahækkun vildi Liverpool halda honum.

Emre Can var sagður vilja frá 200 þúsund pund í vikulaun sem myndi gera hann að launahæsta leikmanni félagsins. 200 þúsund pund eru 28 milljónir íslenskra króna.





Emre Can hefur nú stigið fram og leiðrétt þessar fréttir. „Þetta er ekki satt“ sagði Emre Can í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.

„Athyglisverðar fréttir um mig í blöðunum. Ég ætla ekki að tjá mig meira um falskar fréttir eða sögusagnir,“ skrifaði Can meðal annars.

Can kom til Liverpool frá Bayer Leverkusen fyrir 10 milljónir punda árið 2014. Hann hefur spilað 168 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 14 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×