Skoðun

Hálfur lífeyrir

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar (TR) eru með eldfimari umræðuefnum. Sitt sýnist hverjum um hlutverk stofnunarinnar og hvað teljist sanngjarnt þegar kemur að samspili tekna og greiðslna en lítið er þó rætt um hálfan lífeyri, nokkuð undarlega nýjung sem kynnt var til leiks um áramótin.

Greiðslur lífeyris TR skerðast vegna tekna. Hlutfallið er 45% hjá sambúðarfólki og 56,9% hjá þeim sem búa einir. Á þessu eru þó undantekningar. Almennt frítekjumark er 25.000 kr. á mánuði og að auki er sérstakt 100.000 kr. frítekjumark vegna launatekna. Þá hefur séreignarsparnaður engin áhrif á greiðslur ellilífeyris. Þetta á við um hefðbundna töku greiðslna frá stofnuninni en hálfur lífeyrir skerðist hins vegar ekki um krónu vegna tekna, hvernig svo sem stendur á því.

Hálfan lífeyri er hægt að sækja um að því gefnu að við höfum náð 65 ára aldri og sótt um slíkar greiðslur samtímis hjá TR og lífeyrissjóðum. Samanlagður hálfur lífeyrir frá stofnunni og lífeyrissjóðum verður að lágmarki að jafngilda fullum lífeyri hjá TR. Séu lífeyrisréttindi mjög lítil er því ekki hægt að sækja um þessa útfærslu.

Hugmyndin er ágæt. Það getur verið freistandi að minnka við sig starfshlutfall en ekki víst að fjárhagur fólks leyfi að tekjurnar minnki. Því er brugðið á það ráð að heimila okkur að sækja hálfar greiðslur frá lífeyrissjóðum og TR til að minnka tekjutapið. Það er þó eilítið sérstakt að þeir sem kjósi þessa leið sleppi alfarið við skerðingar. Sá sem safnað hefur góðum lífeyrisréttindum, segjum 600.000 kr. á mánuði, veit að hann mun ekki fá neinar greiðslur frá Tryggingastofnun þegar hann hættir að vinna.

Sé sótt um hálfan lífeyri myndast allt í einu réttindi, yfir 100.000 krónum á mánuði. Er nema von að fjármál við starfslok flækist fyrir mörgum?

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka




Skoðun

Sjá meira


×