Íslenski boltinn

Írönsk nýlenda í Vestmanneyjum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shahab Zahedi í leik með ÍBV í Pepsi-deildinni í fyrra. Hann skoraði þessum leik á móti FH.
Shahab Zahedi í leik með ÍBV í Pepsi-deildinni í fyrra. Hann skoraði þessum leik á móti FH. Vísir/Eyþór
Það eru ágætar líkur að hitta Írana þegar menn skella sér til Vestmanneyja í sumar. Fótboltalið bæjarins safnar nefnlega írönskum leikmönnum þessa dagana.

Shahab Zahedi lék með liðinu í fyrra og verður áfram með liðinu í sumar.

Í viðbót við hann hafa bæst þeir Irman Sarbazi og Eshan Sarbazi og Parsa Zamaniand. Allir þessir fjórir eru staddir í æfingaferð á Spáni.

Ehsan Sarbazi er þekktastur af þeim en hann er 23 ára miðjumaður. Hinir tveir eiga eftir að skapa sér nafn í fótboltaheiminum.

„Þeir koma úr sömu akademíu og Shahab. Þeir verða með okkur og KFS í sumar. Þetta er áframhaldandi samvinna við þessa akademíu sem þeir koma úr," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, í samtali við vefsíðuna fótbolti.net.

Shahab Zahedi kom til ÍBV um mitt mót í fyrra og skoraði fjögur mörk í níu leikjum í Pepsi-deildinni 2017.

Zahedi skoraði reyndar ekki í fyrstu sjö umferðunum eftir að hann mætti út í Eyjar og var tvisvar ónotaður varamaður á þessum tíma.

Shahab Zahedi skoraði hinsvegar tvö mörk í 2-1 í mikilvægum sigri á Grindavík og skoraði einnig á móti bæði FH og Breiðabliki.

Shahab Zahedi er nú með samning við ÍBV út 2020.

„Þeir koma til okkar til þessa að bæta sig sem fótboltamenn. Þeir senda þá til okkar til þess að við gerum þá betri. Einhverjir verða í KFS og kannski einhverjir með okkur. Þetta tekur tíma eins og sást með Shahab í fyrra," sagði Kristján við fótbolti.net.

KFS liðið leikur í C-riðli 4. deildar í sumar og er fyrsti leikur liðsins á móti Kóngunum 19. maí.

Pepsi-deildarlið ÍBV hefur aftur á móti leik á móti Breiðabliki laugardaginn 28. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×