Körfubolti

Hörður Axel biðst afsökunar: „Alls ekki það sem ég vil standa fyrir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hörður í baráttunni við Hjálmar Stefánsson í leiknum í gær.
Hörður í baráttunni við Hjálmar Stefánsson í leiknum í gær. vísir/bára
Hörður Axel Vilhjálmsson, leikstjórnandi Keflavíkur í Dominos-deild karla, baðst í gærkvöldi afsökunar á hegðun sinni í oddaleik Keflavíkur gegn Haukum í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi en að lokum höfðu Haukarnir betur. Þeir eru því komnir í undanúrslitin en Keflvíkingar eru á leið í sumarfrí.

Eitthvað hefur skapið hlaupið með Hörð Axel í gönur í gær. Ekki kemur fram hver hegðunin var en ljóst er að hann er fullur iðrunar og segir hann að „stundum hlaupi kappið með mann þegar maður vill eitthvað virkilega mikið.”

Alla yfirlýsingu Harðar má sjá hér að neðan en hún birtist bæði á Facebook og Twitter.

Yfirlýsing:

Hrikalega sár, svekktur, pirraður og allskyns aðrar tilfinningar sem eru að brjótast út.

En á sama skapi stoltur af liðinu.

Við löbbum frá borði með því að geta sagt að við gáfum gjörsamlega allt í þetta, útkoman ekki sem maður vildi en þannig er það stundum.

Ég þakka mjög góðu Hauka liði fyrir seríuna og óska þeim góðs gengis í framhaldinu.

Eg vil líka biðjast afsökunnar á framferði mínu í fyrri hálfleik gagnvart stuðningsmönnum Hauka, stundum hleypur kappið með mann þegar maður vill eitthvað virkilega mikið.

En alls ekki það sem ég vil standa fyrir. Þvi biðst ég hér með innilegar afsökunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×