Golf

Ólafía fór holu í höggi á fyrsta risamóti ársins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á sautjándu brautinni á Dinah Shore vellinum í Kaliforníu. Ólafía spilaði fyrsta hringinn á pari.

Ólafía er þar við keppni á fyrsta LPGA-risamóti ársins en á sautjándu holunni setti hún boltann beint ofan í holuna í fyrsta höggi sínu.

Holan er par þrjú og 179 metrar en fyrir okkar konu var þetta lítil fyrirstaða. Algjörlega ótrúleg en annars var hringurinn hjá íþróttamanni ársins 2017 nokkuð kaflaskiptur. Hún fékk örn í tvígang og tvo fugla en skollarnir voru sex.

Ólafía endaði á pari vallarins en þegar þetta er skrifað situr hún í 40. sætinu. Þetta ætti að gefa henni gott sjálfstraust fyrir morgundaginn en annar keppnisdagurinn fer fram á morgun.

Þá kemur í ljós hvort að Ólafía komist í gegnum niðurskurðinn en þriðji og fjórði hringurinn verða leiknir á laugardag og sunnudag. Vísir fylgist áfram vel með gangi mála á morgun.

Myndband af atvikinu má sjá í sjónvarpsglugganum efst í fréttinni. Karen Sævarsdóttir lýsti þessu í beinni útsendingu á Golfstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×